Fara í efni
Menning

Ævintýraglugginn bíður þín í Hafnarstræti 88

Barbíkallapartíið er einstaklega skemmtilegt. Mynd: RH

Öll lékum við okkur einhverntíman með leikföng. Í tilefni af Barnamenningarhátíð í bænum hafa systurnar Brynja og Áslaug, Harðardætur Tveiten, sett upp nýja sýningu í GLUGGANUM í Hafnarstræti 88 – og þemað er leikföng í gegn um tíðina. Gluggasýningin er ætluð til að vekja forvitni, gleði og skapa skemmtilegan áfangastað í gönguferðum, segir í fréttatilkynningu frá systrunum. 

GLUGGINN er skemmtilegt og óvenjulegt listagallerí, en fyrir innan er Brynja með vinnustofu sína þar sem hún málar og grúskar. Systir hennar, Áslaug, er mikill grúskari líka og rekur markaðinn Frú Blómfríði á sumrin, sem er einskonar skrautmunasala með gömlu dóti. „Þarna erum við í essinu okkar, að skapa einhvern lítinn heim úr alls konar hlutum,“ sagði Brynja í viðtali á Akureyri.net fyrir ári síðan um tilurð GLUGGANS. 

Sýningin sem systurnar bjóða upp á í apríl 2025, er ekki síður fyrir fullorðin börn, en það er ansi líklegt að fólk á öllum aldri finni fyrir nostalgíu að sjá leikföngin sem systurnar hafa tínt til og stillt upp. „Það er t.d. hægt að telja kisurnar og hundana, taka lagið með barbí körlunum, lesa bóka- og plötutitlana, spinna upp sögur, fara í falinn hlut og labba kjánalega meðan gengið er hjá,“ segir Brynja. „Að síðustu má ekki gleyma að kíkja í Rauða póstkassann við hlið gluggans, skrifa nafnið sitt eða orðsendingu í gestabókina og teygja sig í litla gjöf.“

 

Þessi litli og sæti sandkassi er við GLUGGANN, en hér væri hægt að rifja upp sandkökubakstur. Mynd RH

Ófáir áttu bækurnar um Jón Odd og Jón Bjarna. Mynd RH