Fara í efni
Fréttir

Aðsetur Umhverfis- og orkustofnunar verður á Akureyri

Aðsetur nýrrar Umhverfis- og orkustofnunar, sem tekur til starfa 1. janúar á næsta ári, verður á Akureyri.

Stofnunin tekur við starfsemi Orkustofnunar og hluta af starfsemi Umhverfisstofnunar, skv. lögum sem samþykkt voru á Alþingi í lok síðasta mánaðar.

Ekki er ljóst hve margir starfsmenn verða á Akureyri fyrst í stað þar eð fólki verður ekki gert að færa sig frá núverandi starfsstöðvum, heldur verða ný störf auglýst á nýju aðsetri viðkomandi stofnunar, eða öðrum starfsstöðvum hennar á landsbyggðinni. Enda segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, það langtíma verkefni að færa störf út á land.

Akureyri - Vesturland - Hvolsvöllur

Ráðherra hefur ákveðið að aðsetur nýrra stofnana ráðuneytisins verði utan höfuðborgarsvæðisins og embætti forstjóra þriggja verða auglýst um helgina:

  • Forstjóri nýrrar Umhverfis- og orkustofnunar mun hafa aðsetur á Akureyri
  • Forstjóri nýrrar Náttúrufræðistofnunar verður með aðsetur á Vesturlandi. Áður hafði Alþingi samþykkt að Landmælingar Íslands og Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn yrðu hluti af Náttúrufræðistofnun Íslands, sem við breytingarnar fékk heitið Náttúrufræðistofnun og tók ný sameinuð stofnun til starfa 1. júlí sl.
  • Forstjóri nýrrar Náttúruverndarstofnunar mun hafa aðsetur á Hvolsvelli. Stofnunin tekur við Vatnajökulsþjóðgarði og starfsemi náttúruverndarsviðs UmhverfisstofnunarHöfuðstöðvar Vatnajökulsþjóðgarðs voru færðar til Hafnar í Hornafirði árið 2022 og verða þar eftir sem áður. 

Fastir starfsmenn um 100

Fastir starfsmenn nýrrar Umhverfis- og orkustofnunar verða um 100 og álíka margir hjá Náttúruverndarstofnun . Stofnanirnar eru nú þegar með 20 fastar starfsstöðvar eða gestastofur víða um land, en starfsmenn nýrrar Náttúrufræðistofnunar eru um 80 talsins með starfsstöðvar í Garðabæ, Akranesi, Akureyri, Djúpavogi og við Mývatn.

„Við höfum lagt á það áherslu að færa störfin nær viðfangsefnum stofnana ráðuneytisins. Við erum þegar búin að færa aðsetur Vatnajökulsþjóðgarðs heim á Hornafjörð og með þessum breytingum stígum við enn stærri skref,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson.

Fólki ekki gert að færa sig

„Nýjar stofnanir verða öflugri og hagkvæmari einingar sem verða betur í stakk búnar að sinni skyldum sínum gagnvart náttúrunni og fólkinu sem þær þjónusta. Starfstöðvarnar eru þegar víða um land og því góður bragur á því að aðsetur þeirra verði utan höfuðborgarsvæðisins. Það er vert að nefna að fólki verður ekki gert að færa sig frá sínum starfsstöðvum. Það er langtíma verkefni að færa störf út á land og þetta er enn eitt skrefið í þeirri vegferð,“ segir ráðherra.