Aðrar áskoranir en líka mjög skemmtilegar
Stelpurnar í KA/Þór taka á móti Aftureldingu í dag í toppslag næst efstu deildar Íslandsmótsins í handbolta, Grill66 deildarinnar. KA/Þór hefur unnið níu leiki af 10 og er efst með 19 stig, HK er í öðru sæti með 17 að loknum 11 leikjum og Afturelding í þriðja sæti með 15 stig eftir 10 leiki. Þessu þrjú eru áberandi best í deildinni.
Anna Þyrí Halldórsdóttir, sem er bæði góður línumaður og grjóthörð í vörn, er einn af máttarstólpum KA/Þórs. Hún er aðeins 23 ára en margreynd; lék fyrst með meistaraflokki 16 ára og á eina 160 leiki að baki.
Gaman í KA-heimilinu þegar margir mæta
KA/Þór hefur unnið níu leiki í vetur sem fyrr segir. Eina stigið sem stelpurnar hafa ekki náð að sækja var þegar gerðu jafntefli við Aftureldingu í Mosfellsbæ í haust. „Afturelding og HK eru með mjög góð lið og allir geta unnið alla,“ segir Anna Þyrí við Akureyri.net um viðureignir þessara liða. „Afturelding var með okkur í Olísdeildinni í fyrra, endaði einu sæti fyrir ofan okkur en féll eftir umspil við Gróttu,“ rifjar hún upp.
Viðureignin í dag er sannkallaður stórleikur og ekkert annað en sigur kemur til greina, segir Anna Þyrí. „Við ætlum að gera okkar besta til að vinna. Við höfum ekki átt heimaleik síðan um miðjan nóvember og ég hvet fólk til að mæta. Það er svo gaman í KA-heimilinu þegar við spilum fyrir fullu húsi og stuðningurinn skiptir miku máli.“
Jónatan Magnússon tók við þjálfun KA/Þórs á ný fyrir veturinn og Anna Þyrí er afar ánægð með hann. „Jonni þjálfaði mig þegar ég var að byrja í meistaraflokki, þegar við fórum upp úr Grill deildinni á sínum tíma. Hann er frábær og þeir eru mjög gott teymi, hann og Valdi [Þorvaldur Þorvaldsson] aðstoðarþjálfari og Egill [Ármann Kristinsson] styrktarþjálfari.“
Íslandsmeistarar! Anna Mary Jónsdóttir, Aldís Ásta Heimisdóttir og Anna Þyrí Halldórsdóttir við komuna heim til Akureyrar eftir að KA/Þór tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri á Val í Reykjavík 6. júní 2021. Synd: Skapti Hallgrímsson
Í þroskandi hlutverki
Anna Þyrí var í Íslands- og bikarmeistaraliði KA/Þórs 2021. Hún hefur því upplifað miklar gleðistundir en líka vonbrigin sem fylgdu því að falla niður um deild í fyrra. En glasið er augljóslega hálf fullt í hennar augum: „Íslandsmeistaraævintýrið var auðvitað mjög skemmtilegt en verkefnið núna er það líka, bara á annan hátt. Áskoranirnar eru aðrar því við erum með margar ótrúlega efnilegar stelpur og þær fá að spila mikið sem er mjög mikilvægt, þannig verða þær betri og betri.“
Markmiðið í vetur er augljóslega að fara beint upp í efstu deild á ný en líka að búa liðið undir að leika meðal þeirra bestu og festa sig í sessi þar á ný. „Liðið fúnkerarar mjög vel saman í vetur, ungu stelpurnar spila margar mínútur en það getur líka verið mikil áskorun að vera á toppnum í deildinni; ég er bara 23 ára en er samt með mikla reynslu og það er þroskandi fyrir mig að vera núna í öðru hlutverki en þá. Ég reyni að nota reynsluna af þeim tímabilum sem ég hef leikið með liðinu til þess að leiðbeina ungu stelpunum.“
Ungu leikmennirnir eru mjög góðir, segir Anna Þyrí – og nefnir að þótt verkefnið sé annað nú en þegar liðið var það besta hér á landi sé eitt sambærilegt: „Stelpurnar eru ekki bara góðar, þær eru líka mjög skemmtilegar. Það er ótrúlega gaman hjá okkur í vetur.“