Á listamannalaunum út ævina
Listakonan Anna Richards er loksins komin á listamannalaun og verður á þeim til æviloka. Þannig lítur Anna a.m.k. á ellilífeyrinn, sem loksins gefur henni frelsi til þess að sinna listinni sem fullri vinnu.
Anna hélt nýlega fyrirlestur í Listasafninu á Akureyri þar sem hún ræddi fjármál sín og annars listafólks undir yfirskriftinni Listafólk er besta fjárfestingin! Í fyrirlestrinum fór Anna stuttlega yfir feril sinn sem gjörningalistakona og þær fjárhagslegu áskoranir sem falist hafa í því. Eins sagði hún frá hugmynd sem hún er með sem gæti gefið Akureyri mikla sérstöðu og stutt við listafólk sem vill vinna að listum meira en bara í frítíma sínum.
Anna var með skemmtilegan fyrirlestur í Listasafninu á Akureyri í október. Þar lýsti hún m.a. tilveru listafólks sem þarf að sökkva sér í styrkumsóknagerð á hverju ári í leit að styrkjum til þess að fjármagna listsköpun sína.
Á fyrirlestrinum sagði Anna m.a frá því hversu mikið basl það getur verið að vera listakona en eftir útskrift úr listnámi þarf listafólk oft að finna upp hjólið því það séu engin störf sem sjálfkrafa bíði þeirra. Þetta listafólk fer því flest að vinna við eitthvað allt annað en það menntaði sig í og reynir svo að sinna listsköpun í hjáverkum. „Flest listafólk eyðir miklum tíma í gerð styrkumsókna á hverju ári í leit að styrkjum svo það geti sinnt sinni list. Peningarnir sem fást út úr styrkjum fara hins vegar oft til þess að greiða öðru fagfólki sem kemur að verkinu, svo lítið situr eftir fyrir launagreiðslur handa listafólkinu sjálfu. Þannig að listafólk fær meira þóknun en laun fyrir vinnuna sína. Þetta er auðvitað ekki sanngjarnt og þessu þarf að breyta,“ segir Anna.
Kæfa stórbrotnar hugmyndir vegna fjárskorts
Sjálf hefur Anna komið nálægt ýmsum listrænum verkefnum í gegnum tíðina, sum þeirra hafa verið alveg ólaunuð en önnur verið fjármögnuð að hluta með ýmsum styrkjum. „Ég fæ oft einhverjar brjálaðar hugmyndir sem þarfnast fleiri handa og fjármagns, sem getur verið heftandi því minni hugmyndir eru þægilegri viðureignar,“ segir Anna og bætir við að það sé náttúrlega mikil synd að listafólk þurfi að kæfa stórbrotnar hugmyndir eða pakka þeim saman svo þær verði þægilegri í framkvæmd fjárhagslega séð. Til þess að geta sinnt listinni hefur Anna valið að vera í ýmiss konar verktakavinnu á sínum starfsferli, aðallega tengt kennslu. Að meðaltali hefur hún unnið einn mánuð á ári sem listakona en restina af árinu við eitthvað allt annað til að afla sér lifibrauðs.
Flest listafólk eyðir miklum tíma í gerð styrkumsókna á hverju ári í leit að styrkjum svo það geti sinnt sinni list. Peningarnir sem fást út úr styrkjum fara hins vegar oft til þess að greiða öðru fagfólki sem listafólk er að vinna með svo lítið situr eftir fyrir listamanninn til að greiða sér laun. Þannig að listafólk fær meira þóknun en laun fyrir vinnuna sína. Þetta er auðvitað ekki sanngjarnt og þessu þarf að breyta.
Frægasti gjörningur Önnu er hreingjörningurinn í miðbæ Akureyrar en á hverjum föstudegi í heilt ár setti Anna sig í hlutverk skúringakonu og þreif miðbæinn. Bæjarbúar skiptust í tvennt að sögn Önnu, þeir sem héldu að hún væri klikkuð og þeir sem sáu að um list væri að ræða.
Klikkuð listakona?
Þegar horft er yfir listferil Önnu þá hefur hún samt sem áður náð að gera ótrúlegustu hluti og segist Anna sátt við það sem hún hefur lagt af mörkum til listalífsins á Akureyri. Hennar frægasti gjörningur er án efa hreingjörningurinn sem hún framkvæmdi í miðbæ Akureyrar alla föstudaga í heilt ár 1998-99. Uppátækið skipti bæjarbúum að hennar sögn í tvennt; þeir sem héldu að hún væri alveg klikkuð og hinir sem sáu að um list var að ræða.
- Varstu ekki bara á undan þinni samtíð?
„Jú mögulega allavega voru ekki margar konur á Akureyri að gera gjörninga þegar ég flutti hingað aftur árið 1989. Núna er til eitthvað sem heitir A! Gjörningahátíð og unga fólkið þekkir þetta listform og notar það. Og kannski vegna þess að einhver fór á undan og opnaði dyr. Ég sé mig ekkert endilega sem listakonu heldur kannski meira bara sem dyravörð og mér finnst það skemmtilegt hlutverk. Þegar ég var með hreingjörninginn þá var ég með 10 ára plan varðandi það að fá íbúa á Akureyri til að treysta sér til að sjá gjörninga sem list og að þeir hefðu tækifæri til að upplifa þetta listform eins og hvert annað listform. Næstu 10 árin eftir það var mitt persónulega markmið að fólk sem ég næði til í gegnum kennslu myndi sjá að ég væri ekki klikkuð. Því listakonan Anna og listin sem hún framleiðir, og hins vegar persónan Anna er tvennt ólíkt. Nú eru þessi 20 ár liðin og báðum þessum markmiðum lokið og hvað tekur nú við kemur í ljós. Ég hóf töku ellilífeyris þann 30. nóvember og ég hef ákveðið að líta á lífeyrinn sem listamannalaun til æviloka því nú þarf ég ekki lengur að vinna annað til að fjármagna listina, en auðvitað þarf fjármagn ef ég ætla að setja upp stærri verkefni,“ segir Anna spennt fyrir breyttum tímum. Aðspurð hvort þetta þýði ekki að hún verði loks óstöðvandi í listsköpun sinni segist hún ekkert vita hvaða áhrif þetta hafi en sjái þó fyrir sér að nú þegar hún hafi næði til þess að hugsa eingöngu um listina þá muni eitthvað spennandi gerast. „Það er langt síðan ég hef sett upp verk, ég hef bara ekki haft orku og kraft í það að gera fleiri styrkumsóknir. En ég er með hugmynd til að vinna að næstu árin og ég hlakka til að byrja á því.“
Anna hefur framið gjörninga bæði hér heima og erlendis og hefur t.d. sýnt hreingjörninginn í St. Pétursborg, Japan og Afríku. Hún er fædd og uppalin á Akureyri en menntaði sig í þýskum háskóla og flutti til baka til Akureyrar árið 1989. Fáar konur voru þá að gera gjörninga í bænum en í dag eru gjörningar þekkt listform og t.d. er árlega haldin gjörningahátíð í bænum.
Vill að listafólk hafi úr einhverju að moða
Þó Anna, sem er 65 ára gömul, sé að fara inn í nýtt og spennandi lífsskeið, er velferð listamanna á Akureyri og framtíð Akureyrar henni ofarlega í huga um þessar mundir. „Ég fékk bara rosalegan áhuga á því að gera eitthvað á stærra plani fyrir listina í bænum. Mig langar svo til þess að það verði til einhverjir peningar, ekki fyrir mig, heldur fyrir það fólk sem er að starfa í grasrótinni, eins og ég hef verið að gera. Að þetta fólk hafi úr einhverju að moða, af því ég veit það verður sprengja fyrir bæinn ef það verða settir miklir peningar í listir.“
Segir Anna að vissulega sé margt skemmtilegt í gangi í listalífinu á Akureyri en margt af listafólki bæjarins sé ekki bara fjármagna heldur líka örmagna. „Bæði vegna þess að það nær ekki að vinna við það sem það hefur menntað sig í og vill helst vera að vinna að, þ.e.a.s. listinni, heldur sinnir það listinni að loknum vinnudegi, ef það hefur þá orku í það.“
- Anna segir betur frá hugmyndum sínum varðandi það hvernig styðja megi enn betur við listafólk í bænum og þar með gera Akureyri að enn betri bæ. Fylgist með á morgun á Akureyri.net.
Gjörningar Önnu eru tilfinningaþrungnir. „Ég fæ oft einhverjar brjálaðar hugmyndir sem þarfnast fleiri handa og fjármagns, sem getur verið heftandi því minni hugmyndir eru þægilegri viðureignar,“ segir Anna og bætir við að það sé náttúrlega mikil synd að listafólk þurfi að kæfa stórbrotnar hugmyndir eða pakka þeim saman svo þær verði þægilegri í framkvæmd fjárhagslega séð.