Á fimmta tug trjáa felld í Öskjuhlíð
![](/static/news/lg/tre-adal-frett.jpg)
Á fimmta tug trjáa verða felld í Öskjuhlíð á morgun, þriðjudag, á vegum umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar. Um er að ræða þau tré sem skaga hæst upp úr Öskjuhlíðinni. Þetta kemur fram á mbl.is í kvöld, staðfest af Einari Þorsteinssyni borgarstjóra.
Aðeins ein braut er nú í notkun á Reykjavíkurflugvelli eftir að annarri – austur-vestur brautinni – var lokað um helgina samkvæmt tilskipun Samgöngustofu til Isavia. Ástæðan er sú að hæð trjáa í Öskjuhlíð ógnar flugöryggi til og frá höfuðborginni.
Miðstöð sjúkraflugs á Íslandi sem samanstendur af Slökkviliði Akureyrar, Sjúkrahúsinu á Akureyri og Norlandair, hefur lýst þungum áhyggjum vegna lokunar brauta á flugvellinum og Eyjólfur Ármannsson samgönguráðherra var harðorður á opnum fundi um stöðu og framtíð Reykja víkurflugvallar á föstudaginn, þegar ljóst var að flugbrautinni yrði lokað. „Ný ríkisstjórn er einhuga um að standa vörð um framtíð Reykjavíkurflugvallar á núverandi stað í Vatnsmýrinni, svo einfalt er það,“ sagði ráðherra.
Einar Þorsteinsson borgarstjóri segir við mbl.is að aðgerðaáætlun fyrir fyrsta áfanga trjáfellinga vegna tilmæla Samgöngustofu verði einnig lögð fram á morgun og geri hún ráð fyrir fellingu 500 trjáa.