Fara í efni
Fréttir

300 kíló salkjöts og 600 lítrar baunasúpu

Einar Gauti Helgason matreiðslumeistari á Vitanum mathúsi við einn súpupottinn í hádeginu. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Starfsfólk Vitans mathúss á Oddeyri hafði í nógu að snúast í morgun. Reyndar er mikið að gera alla virka morgna, enda margir sem leggja leið sína þangað í hádeginu, en gestir voru eitthvað fleiri í dag en alla jafna.

Saltkjöt og baunir eru ómissandi á sprengidaginn eins og alþjóð veit;  sumir þeirra sem snæddu á Vitanum í hádeginu láta það líklega duga en vitað er um aðra sem hituðu þar upp, ef svo má segja, fyrir enn meira af saltkjöti og baunum heima í kvöld! 

Einar Gauti Helgason matreiðslumeistari var önnum kafinn þegar Akureyri.net leit við en gaf sér þó tíma í stutt spjall. „Við erum með 300 kíló af saltkjöti og 600 lítra af súpu,“ sagði hann, spurður um magnið sem afgreitt væri úr eldhúsinu í dag. Einar gerir ráð fyrir að 1600 manns gæði sér á saltkjöti og baunum frá Vitanum í dag, en vert er þó að nefna að fleira var á boðstólum, m.a. fiskur og kjúklingur.

Matreiðslumeistarinn gerði ráð fyrir að um 300 manns snæddu á Vitanum í hádeginu, nokkur hundruð manns alls í matsal Norðurorku og í 600 Mathúsi, sem Vitinn rekur í Hrísalundi, „og svo sendum við 900 matarbakka í ýmis fyrirtæki úti í bæ,“ sagði Einar Gauti.