247 ára samanlögð reynsla í brugghúsinu
Misjafnt er hve fólk staldrar lengi við á vinnustöðum, starfsmannavelta er víða mikil en annars staðar nánast engin. Akureyri.net barst til eyrna að hópur fólks hefði lengi haldi tryggð við Víking brugghús á Akureyri og það reyndust engjar ýkjur – starfsmennirnir átta á myndinni hafa unnið í verksmiðjunni í samtals í 247 ár, tæpt 31 ár að meðaltali.
Sá með mestu reynsluna er Unnsteinn Steinþórsson sem starfað hefur í brugghúsinu í 39 ár en nýliðinn í hópnum, Sigfús Hreiðarsson, hefur ekki unnið þar nema í 22 ár!
Víking brugghús er í eigu Coca-Cola Europacific Partner á Íslandi hf. og er til húsa á mótum Furuvalla og Hjalteyrargötu á Oddeyri. Gamlir Eyrarpúkar muna eftir verksmiðjunni Sana í elsta hluta byggingarinnar, þar sem á árum áður urðu til Mix, Valash, Cream soda og fleiri goðsagnakenndir gosdrykkir, bjórinn Thule lageröl að ógleymdu jólaöli, sem kemur upp í hugann á þessum árstíma.
Á myndinni eru, frá vinstri: Sigfús Hreiðarsson (22 ár), Unnsteinn Steinþórsson (39 ár), Ríkarður Guðjónsson (36 ár), Katrín Pálsdóttir (27 ár), Stefán Pálmason (32 ár), Sigrún Helga Kjartansdóttir (26 ár), Hannes Helgason (33 ár), Baldur Kárason (32 ár).
„Þessir starfsmenn eru ásamt öðrum kjarninn í velgengni fyrirtækisins, með áratugareynslu sem hefur mótað framleiðsluferla okkar og tryggt gæði hverrar vöru,“ segir Eggert H. Sigmundsson, forstöðumaður brugghússins við Akureyri.net.
Starfsmenn Víking brugghúss eru 23 og margir þeirra sem ekki eru á myndinni hafa unnið þar í meira en áratug.
Í verksmiðjunni er m.a. bruggaður Viking bjór, eins og nafnið gefur til kynna. „Framleiðsla á jólabjór er nú í fullum gangi og sem endranær skiptir miklu máli að unnið sé eftir hefðum. Þá kemur öll þessa þessi reynsla sér vel,“ segir Eggert.