Íþróttir
2. deild B á HM: Arnar besti varnarmaðurinn
25.01.2024 kl. 11:20
Íshokkílandslið karla U20. Mynd: sasport.is.
Akureyringar voru áberandi með U20 landsliði Íslands í íshokkí þegar liðið keppti í 2. deild B á heimsmeistaramótinu á dögunum.
Íslenska liðið vann til bronsverðlauna í 2. deild B, eins og Akureyri.net greindi frá í frétt. Greint er frá því á heimasíðu Skautafélags Akureyrar að þessi árangur sé sá besti sem Ísland hefur náð í þessum aldursflokki á Heimsmeistaramótinu.
- Arnar Helgi Kristjánsson, leikmaður SA, var valinn besti varnarmaður mótsins og var stigahæsti leikmaður Íslands á mótinu og þriðji stigahæsti leikmaður mótsins með níu stig, skoraði tvö mörk og átti sjö stoðsendingar
- Akureyringurinn Alex Máni Sveinsson, sem nú leikur með Örnsköldsvík í sænsku 1. deildinni, var markahæsti leikmaður Íslands með fjögur mörk og átti auk þess fjórar stoðsendingar.
- Akureyringurinn Helgi Þór Ívarsson, leikmaður ungmennaliðs EJ Kassel í Þýskalandi, var með þriðja besta markvörsluhlutfall mótsins, með 91,87% markvörslu.