Fara í efni
Fréttir

12 stórum „húsbílum“ ekið í gegnum bæinn

6 raðhúsaíbúðir í tilbúnum einingum, fluttar á 12 vörubílum. Mynd: RH

6 íbúðarhús voru flutt í gegnum bæinn um níuleytið í morgun, á tólf flutningabílum. Um er að ræða raðhús, svokölluð 'kubbahús', sem Bjarg íbúðafélag ætlar að reisa á Húsavík. Lögreglan boðaði lokun gatna um stundarsakir vegna lestarinnar, og gekk allt vel fyrir sig. Björn Traustason, framkvæmdastjóri Bjargs, segir að þetta sé í raun fyrsta verkefni félagsins þessarar tegundar, en örugglega ekki það síðasta. 

„Húsin eru smíðuð á Selfossi, af SG húsum, en það er í raun allt gert klárt og hvert hús fer svo í tvö 'box',“ segir Björn. „Svo þarf tvo flutningabíla til þess að flytja hvert hús, það er svo híft á tilbúinn grunn og sett saman. Búið er að finna leigjendur fyrir öll húsin á Húsavík, og ég geri ráð fyrir að þau bíði spennt eftir því að sjá húsin sín koma keyrandi í bæinn!“

„Þetta nýsköpunarverkefni er búið að vera í þróun lengi,“ segir Björn. „Það hentar mjög vel til uppbyggingar félagsins úti á landi og stórminnkar kostnað við byggingar. Á Húsavík erum við að byggja sérbýli með litlum garði, en allar íbúðirnar eru 4ra herbergja. Reiknað er með að íbúðirnar verði tilbúnar í apríl 2025.“

 

Húsavík, Lyngholt 42-52

Hér má sjá húsin sem sett verða upp á Húsavík. Mynd: Bjarg íbúðafélag

Bjarg íbúðafélag er með hús á Akureyri, í Guðmannshaga. Björn segir að fleiri hús séu í bígerð, og næst verður byggt í Móahverfi. „Við verðum með fjölbýlishús á tveimur hæðum í Langamóa 1-3. Þau verða byggð á staðnum, en akureyrska fyrirtækið BF byggingar sér um það verkefni og byrjar á næstu vikum.“

Leiguheimili, ekki leiguhúsnæði

„Aðalmarkmið Bjargs er að tryggja fólki húsnæðisöryggi,“ segir Björn. „Við erum leigufélag án hagnaðarsjónarmiða og það þarf að vera undir ákveðnu tekjuþaki til þess að geta sótt um að leigja hjá okkur. Leiguverð er mismunandi á milli staða, það fer eftir kostnaði verkefna. Við köllum íbúðirnar okkar leiguheimili, af því að það þarf ekki að hafa áhyggjur af því að missa húsnæðið. Þú heldur því eins lengi og þú vilt, og það breytir engu þó að tekjurnar þínar hækki þegar líður á. Ég bendi fólki endilega á að skoða heimasíðuna okkar ef það eru frekari spurningar um starfsemina,“ segir Björn að lokum.