Fara í efni
Menning

Tvær sýningar: Eyjar og Eyjafjörður

Hluti sýningar Eyþórs Inga Jónssonar á Glerártorgi. Ljósmynd: Sverrir Páll.

Myndlist er sýnd víðar en á Listasafninu.

Í Hofi er nú sýningin Eyjar (Islands) með verkum sænsku listakonunnar Reneé Rudebrant. Hér er um að ræða frumsýningu á broti af miklu stærra verki sem á að ná yfir alls fimm eyjar, Ísland, Gozo (Möltu), Landsort (Svíþjóð), Capri (Ítalíu) og eina til viðbótar. Þessi íslenski hluti verksins varð til þegar Reneé dvaldi á Textílsetrinu á Blönduósi haustið 2020.

Verkin eru smá í sniðum og sett saman úr smærri eindum og mynda runur eða heildir, sem listakonan segir lýsa áhrifum dvalar hennar á eyju umluktri hafi. Form og litir séu mismunandi eftir einkennum eyjanna. Í Hofi eru verkin Brot (Fragment) í 6 hlutum og Hvítt (White) í 3 hlutum.

Sýningin Eyjar (Islands) verður í Hofi út febrúar.

Á Glerártorgi er ljósmyndasýning Eyþórs Inga Jónssonar, Eyjafjörður, náttúrulífsmyndir, aðallega fuglar, selir og landslag. Sýningin er á torginu í vesturhluta Glerártorgs og nýtur sín vel á flekum sem þar hafa verið settir upp og veggjum í kring. Það fer betur að hafa myndasýningu þannnig á einum stað en að hengja þær upp á víð og dreif um húsið.

Myndir Eyþórs úr náttúrunni eru einstakar, allt frá lítilli mús til Hraundranga. Þekktastur er hann fyrir fulgamyndir sínar en hefur á undanförnum misserum teygt sig víðar um, við sjáum hjá honum önnur dýr í náttúrunni, landslag, veður og svo framvegis. Sjón er sögu ríkari.

Sýning Eyþórs stendur einnig út febrúar.

Verk á sýningu sænsku listakonunnar Renée Rudebrant í Hofi.