Fara í efni
Menning

Töfrastund í Hofi á afmælistónleikum SN

Ljósmynd: Hilmar Friðjónsson

„Það er erfitt að lýsa því með orðum hvernig lifandi flutningur af slíkum gæðum nær heljartökum á manni,“ skrifar Sigurður Kristinsson meðal annars í pistli fyrir Akureyri.net um 30 ára afmælistónleika Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands í Hofi í gær, þar sem flutt var níunda sinfónía Beethovens.

„Ég skynjaði bæði nákvæmni og dýnamík í flutningi hljómsveitarinnar á þessu glæsilega og krefjandi tónverki Beethovens. Mér fannst sérlega mikið til þessara gæða koma þegar ég áttaði mig á því að með hljómsveitinni léku að því er mér telst til sex ungmenni úr Tónlistarskólanum á Akureyri.“ 

„Einsöngvararnir fjórir, Herdís Anna Jónasdóttir, Hildigunnur Einarsdóttir, Gunnar Björn Jónsson og Oddur Arnþór Jónsson, stóðu einnig fyrir sínu og það er svo sannarlega ekki fyrir hvern sem er að syngja einsöng á móti slíkum risakór og hljómsveit,“ skrifar Sigurður Kristinsson. Ljósmynd: Hilmar Friðjónsson

Í síðasta kafla verksins, þeim fjórða og síðasta, þar sem Óðurinn til gleðinnar eftir Friedrich Schiller er sunginn, var í fyrsta skipti notuð þýðing Matthíasar Jochumssonar á ljóði Schillers þegar níunda sinfónían er flutt í heild. Það fannst Sigurði vel við hæfi, „og þá fannst mér ekki síður passandi að Kór Akureyrarkirkju, sem einnig ber heitið Kirkja Matthíasar Jochumssonar, skuli vera í burðarhlutverki, en hann myndaði um 2/3 hluta kórsins á móti Mótettukór Hallgrímskirkju, samtals um 115 söngvarar eins og þegar var nefnt. Kórverkið er krefjandi og talsvert sungið við efstu mörk hverrar raddar, en mikið óskaplega sem útkoman var góð!“

Smellið hér til að lesa pistil Sigurðar Kristinssonar