Tíminn sem fór – Emmsjé Gauti og Brekkuskóli
Nýtt lag með Emmsjé Gauta, Tíminn sem fór, var kynnt í þættinum Málæði á RÚV í kvöld, í tilefni af Degi íslenskrar tungu. Lagið er afrakstur samstarfs tónlistarmannsins og krakka í Brekkuskóla á Akureyri.
Eins og Akureyri.net greindi frá komu tónlistarmennirnir Emmsjé Gauti og Vignir Snær Vigfússon í Brekkuskóla í október þar sem þeir unnu að nýju lagi með nemendum í 10. bekk. Lagasmíðarnar voru hluti af verkefninu Málæði sem hafði það að markmiði að fá listafólk og unglinga til þess að leika sér með íslenskuna og skapa í tali og tónum.
Skjáskot úr þættinum Málæði sem sýndur var á RÚV í kvöld. Emmsjé Gauti með 10. bekkingum úr Brekkuskóla.
Hér fyrir neðan má hlusta á lagið og þar er einnig texti lagsins.
Tíminn sem fór
Sumarið er tíminn,
þar sem mitt fer í ró,
hittumst á gamla staðnum,
þar sem æskan mín dó.
Og núna er tíminn,
tíminn sem fór,
þegar öll fjöllin minnka,
skila sér niður í sjó.
Ég sakna þess
þegar tíminn var endalaus.
Sumarið er tíminn,
þó það stoppi stutt.
Hafið það glitrar,
demantar og gull.
Og tíminn hann hverfur,
þegar mitt fer í ró,
gufar upp eins og vatnið
þegar við fáum sól.
Nemendur í 10. bekk SPG í Brekkuskóla. Skjáskot úr þættinum Málæði á RÚV.