Fara í efni
Menning

Sönglög norðlenskra tónskálda í Hofi í dag

Söngvararnir sjö og píanóleikarinn Risto Laur á æfingu í Hofi í gær. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Arctic ópera heldur áhugaverða tónleika í Hofi í dag, sunnudag þar sem flutt verða sönglög norðlenskra tónskálda eins og Akureyri.net sagði frá fyrir helgina með samtölum við Michael Jón Clarke, stjórnanda hópsins og einn söngvaranna. 

Arctic ópera er hópur listamanna sem samanstendur af klassískt menntuðu fólki í óperusöng og hljóðfæraleik. „Hópurinn mun taka fyrir allar helstu perlur Eyjafjarðar og nágrennis sem hafa glatt okkur í gegnum árin og fyllt okkur stolti að vera partur af sögu Eyjafjarðar, “segir í kynningu á tónleikunum.

Tónleikarnir – Tónar norðursins – verða í Hömrum í Hofi sunnudaginn 10. nóvember og hefjast kl. 17.00.

Eftirtalin tónskáld sömdu lögin sem flutt verða á tónleikunum: Áskell Snorrason, Elísabet Geirmundsdóttir, Jóhann Ó. Haraldsson, Stefán Ágúst Kristjánsson, Áskell Jónsson, Björgvin Guðmundsson, Birgir Helgason, Jón Hlöðver Askelsson, Eiríkur Bóasson, Daníel Þorsteinsson og Michael Jón Clarke.

Risto Laur leikur á píanó á tónleikunum en söngvararnir eru þessir: Gísli Rúnar Víðisson, Guðrún Ösp Sævarsdóttir, Margrét Árnadóttir, Michael Jón Clarke, Reynir Gunnarsson, Rósa María Stefánsdóttir og Tiiu Laur.