Fara í efni
Menning

Norðlenskir höfundar á bókakvöldi Hælisins

Þessi mynd var tekin á bókakvöldi Hælisins í fyrra. Í ár verður bókakvöldið haldið mánudagskvöldið 25. nóvember.

Hið árlega bókakvöld Hælisins verður haldið þann 25. nóvember. Að vanda verða norðlenskir höfundar á staðnum og fjalla um verk sín.

„Bókakvöld Hælisins hefur verið árlegt síðustu fjögur ár. Ég reyni að hafa norðlenska höfunda eða höfunda sem eru með bækur sem tengjast á einhver hátt sögu berklanna eða Kristneshælis. Sumir hafa samband við mig að fyrra bragði en ég hnippi í aðra. Sumir segjast ekki geta hugsað sér aðdraganda jólanna án þess að mæta á bókakvöld Hælisins,“ segir María Pálsdóttir eigandi Hælisins, seturs um sögu berklanna.

Bókavöldið er sett þannig upp að höfundar segja frá verkum sínum, lesa upp úr þeim og svara spurningum úr sal. Þá verður einnig boðið upp á harmonikkuleik. Að sögn Maríu eru þessi kvöld mjög afslöppuð og kósý. Frítt er inn en veitingasalan verður opin. Húsið opnar 19.30 og hefjast kynningarnar kl. 10. Eftirfarandi höfundar taka þátt í bókakvöldinu í ár:

  • Hrund Hlöðversdóttir, sem gefið hefur út nokkrar bækur fyrir ungmenni. Sú síðasta, Ólga kom út á árinu hjá bókaútgáfunni Hólum. 
  • Sveinbjörg Sveinbjörnsdóttir, sem skrifað hefur þrjár heimildaskáldsögur um fornmæður sínar fyrr á öldum. Nýjasta bók hennar, Aldrei aftur vinnukona, kom nýlega út hjá Króniku. 
  • Úlfar Bragason, prófessor emeritus hjá Árnastofnun, tók saman og bjó til útgáfu bókina Ykkar einlæg, bréf frá berklahælum en þar er að finna bréf sem Ingunn Sigurjónsdóttir skrifaði þegar hún dvaldi á sjúkrastofnunum vegna berkla. Útgefandi er Háskólaútgáfan. 
  • Stefán Þór Sæmundsson, íslenskukennari á Akureyri, hefur komið að útgáfu fjölda bóka í gegnum tíðina sem höfundur eða þýðandi, en hann sendi nýlega frá sér ljóðabókina Mörk sem bókaútgáfan Tindur gaf út. 
  • Hlynur Hallsson, listamaður, sendi í haust frá sér bókina Þúsund dagar - Dagur eitthundraðþrjátíuogníu til tvöhundruðfjörtíuogþrjú. Bókin er byggð á dagbókum Hlyns sem hann hefur skrifað undanfarin 40 ár og hugleiðingum þeim tengdum. Útgefandi Flóra menningarhús.