Myndlistarnámskeið fyrir börn í Deiglunni
Síðastliðið haust var í fyrsta skipti í langan tíma boðið upp á listnám fyrir börn á Akureyri. Það var Samlagið - sköpunarverkstæði sem hélt þá námskeið, en það er félag undir Gilfélaginu. Félagið var stofnað til þess að halda utan um þessa kennslu fyrir börn; Karólína Baldvinsdóttir segir það hafa verið stofnað til þess að mæta þörf og eftirspurn.
„Félagið var stofnað í ágúst síðastliðinn,“ segir Karólína. „Ég fékk hugmyndina og fékk með mér Freyju Reynisdóttur og Gillian Pokalo, listakonur. Gillian er frá Bandaríkjunum, flutti hingað á síðasta ári. Hún hefur reynslu af því að halda svona námskeið í heimalandinu og við ákváðum bara að keyra á þetta.“ Karólína segir að síðasta önn hafi verið hugsuð sem tilraunaverkefni, sem hafi gengið vonum framar.
„Aðsóknin var góð, við fengum frábæra krakka sem greinilega höfðu verið að bíða eftir tækifæri til sköpunar,“ segir Karólína. „Við erum með námskeiðin fyrir 6-10 ára hóp og 11-16 ára. Við vorum dugleg að spyrja þau og fá endurgjöf frá þeim til þess að móta verkefnið enn frekar. Sem dæmi vildu þau hafa lengri tíma og við höfum brugðist við því. Námskeiðið er einu sinni í viku og var einn og hálfur tími þá, en eldri hópurinn fær tvo klukkutíma á viku núna eftir áramót.“ Samlagið endar hverja önn með því að halda sýningu með verkum nemenda. „Núna fyrir áramót var sýningin haldin í Mjólkurbúðinni, sem var mjög skemmtilegt fyrir krakkana og okkur öll. Í vor verður sýning nemenda í Deiglunni á Sumardaginn fyrsta,“ segir Karólína.
„Ég er verkefnastjóri í Samlaginu, en kennslan verður í höndum Gillian, Joris Rademaker og Jonnu,“ segir Karólína. „Tilgangur verkefnisins er ekki aðeins sá að geta boðið börnum upp á listnám, heldur einnig að skapa fjölbreyttari vinnu fyrir myndlistarfólk á svæðinu. Við ætlum að hafa þetta fljótandi og ákveðum ekki hverjir kenna nema eina önn í senn.“
Samlagið fékk styrk upp á 750.000 krónur frá SSNE á þessu ári, en Karólína segir að draumurinn sé að geta farið í samstarf við t.d. Rauða krossinn og VIRK, búa til stærra samfélag í kring um þetta. Til dæmis langar hópinn að bjóða upp á námskeið fyrir fullorðna í framtíðinni.
Námskeiðin fyrir börn eru haldin í Deiglunni og þegar þetta er skrifað er ennþá eitthvað laust í báða aldurshópa. Hægt er að skrá börnin á Sportabler, undir Rósenborg og Gilfélagið og hægt að nýta frístundastyrk Akureyrarbæjar.
Hér er hægt að nálgast meiri upplýsingar um Samlagið: Samlagið (samlagid.art)
Einnig er Samlagið á Facebook.