Minningarsýning til heiðurs Billu
Nú er verið að leggja lokahönd á myndlistarsýningu til að heiðra minningu Bryndísar Arnardóttur listakonu og kennara (Billu), sem lést langt fyrir aldur fram í ágúst 2022. Það eru nemendur Billu sem vilja með sýningunni sýna þakklæti sitt í verki en hún var einstaklega áhugasamur kennari og veitti nemendum sínum mikla hvatningu. Aðstandendur Billu eru einnig um þessar mundir að stofna minningasjóð í hennar nafni og er ætlunin að styrkja konur sem vilja fara í formlegt nám í sjónlistum. Helmingur af afrakstri minningasýningarinnar mun renna í þann sjóð.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Guðmundur Ármann, Arnheiður Kristinsdóttir, móðir Billu, Ronja Axelsdóttir van de Ven, barnabarn Billu, og hluti hópsins „Gellur sem mála í bílskúr.“ Ljósmynd: Jóna Sigurlaug Friðriksdóttir.
Gellur sem mála í bílskúr
Frumkvöðlar verkefnisins er Myndlistarhópurinn „Gellur sem mála í bílskúr.“ Meðlimir hópsins eiga það sameiginlegt að hafa verið nemendur Billu í náminu „Fræðsla í formi og lit“. Hugmyndin að sýningunni kviknaði hjá Gellunum, (sem samanstanda ekki einungis af konum heldur líka karlmönnum), í lok síðasta árs. Þær sóttu um, og fengu, styrk frá Norðurorku og KEA til verkefnisins. Í framhaldinu leituðu Gellurnar uppi aðra hópa úr sama námi og boðuðu til kynningarfundar. Boltinn fór að rúlla og nú er undirbúningurinn á lokametrunum.
Listrænn stjórnandi sýningarinnar er Guðmundur Ármann myndlistarmaður en hann og Billa voru samstarfsfélagar og vinir. Þau áttu meðal annars stóran þátt í að byggja upp öfluga myndlistadeild við Verkmenntaskólann á Akureyri.
Billa var menntaður myndlistarmaður með meistaragráðu í kennslufræðum (listgreinum). Auk þess að vera stofnandi Listfræðslunnar kenndi hún við University of Central Florida, Verkmenntaskólann á Akureyri, Símey og víðar.
Arnheiður Kristinsdóttir, móðir Billu, Ronja Axelsdóttir van de Ven, barnabarn Billu, og Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands. Ljósmynd: Hilmar Friðjónsson
Fengu forsetann í heimsókn
Nýverið átti Hr. Guðni Th. Jóhannesson forseti leið um Akureyri. Þá hitti hann nokkra af nemendum Billu á vinnustofu Guðmundar Ármanns til að fræðast um störf hennar, minningasjóðinn og sýninguna. Barnabarn Billu, Ronja Axelsdóttir van de Ven, flutti kynningu á minningasjóðnum og móðir Billu, Arnheiður Kristinsdóttir, var einnig viðstödd.
Í samtali við Akureyri.net sagði forseti Íslands meðal annars að sér væri sannur heiður að líta við og óska listahópnum góðs gengis og bætti við: „Og gaman að hægt sé að heiðra minningu Billu með þessum hætti, með þessum sjóði og mér þykir bara vænt um að hafa geta fundið stund til að líta við og óska öllum sem hér eru alls velfarnaðar.“
Billa heitin, Bryndís Arnardóttir listakona og kennari.
Formleg opnun og fleiri upplýsingar
Um 40 manns munu sýna verk sín á sýningunni sem verður til húsa í Deiglunni og Mjólkurbúðinni 10. - 12. nóvember næstkomandi.
Sýningin opnar formlega föstudaginn 10. nóvember kl. 16:00 með ávarpi og léttum veitingum.
Henni lýkur sunnudaginn 12. nóvember kl. 17:00.