Kiljan og Kvaran og nú Þorsteinn rjúpan
Limrur og léttar hugleiðingar. Nafnið vekur athygli; limrur alltaf verið í uppáhaldi og svo bættust við léttar hugleiðingar. Hvað skyldi vaka fyrir höfundinum? Hann þekkist undir ýmsum nöfnum, eitt var Fugla-Steini, annað Steini rjúpa. Og þegar bókinni er flett kemur í ljós að höfundurinn heldur mikið upp á það viðurnefni.
„Ég er mjög ánægður með mitt uppnefni. Steini rjúpa,“ upplýsir hann. „Hvað er eðlilegra, eftir að hafa unnið við að telja, merkja og kortleggja þennan fallega fugl í 60 ár, núna í maí, með fárra ára undantekningu. Hér eftir verð ég, Þorsteinn G. Þorsteinsson rjúpan. Samanber nöfnin, Kiljan og Kvaran.“
Þetta skrifar höfundurinn, sem heitir fullu nafni, Þorsteinn Grétar Þorsteinsson, í einni af hinum fjölmörgu léttu hugleiðingum sem fylgja hverri limru í þessari skemmtilegu bók.
„Ég vil geta þess fyrst að ég tileinka hana minningu vinar míns, Gísla Jónssonar frá Hofi í Svarfaðardal. Gísli var farsæll menntaskólakennari, íslenskufræðingur og limrugerðarmaður. Í fjöldamörg ár sá hann um þáttinn Íslenskt mál í Morgunblaðinu. Gísli var frábær maður og góður vinur. Hann lést þann 26. nóvember árið 2001,“ segir Þorsteinn spurður um bókina.
Þannig að þið hafið átt mikið saman að sælda, þú og Gísli?
„Já heldur betur. Við sátum oft saman á Amtsbókasafninu við fræðanna jötu eins og Gísli orðaði það svo hnyttilega. Þar var ég að afla heimilda um Hrísey fyrri tíma en Gísli meðal annars að vinna við sitt frábæra safn um nöfn Íslendinga.“
Varstu þá þegar byrjaður fást við limrusmíðar?
„Það var Gísli sem hvatti mig til limrugerðar. Upphafið að þessu föndri mínu var svolítið skondið. Ég hafði spurt Gísla að því hvað orðið gonna þýddi en í Hrísey voru gonnur litlar bátkænur sem voru smíðaðar þar í eynni af frábærum smiðum en sjómenn notuðu þær til þess að komast út í báta sína þegar þeir lágu við bólfæri úti á legunni.
Gísla varð ekki svarafátt frekar en fyrri daginn. Gonna er stór, ólögulegur bátur sem getur verið allt að þrjátíu tonn að stærð, hljómaði útskýring hans. Svo skrifaði Gísli þessa limru á blað:
Gagnmerk í Hrísey var gonna.
Ég giska á þrjátíu tonna.
Og sætustu meyjar
þeirrar ágætu eyjar
voru æstar í róður með Konna.
Mikið væri gaman að geta búið til svona limrur, sagði ég við Gísla. Prófaðu bara, sagði hann. Svona var upphafið að limrugerð minni. Og Gísli hvatti mig áfram og eftir að hafa lesið mínar fyrstu limrur sagði hann að ég skyldi halda mig við það form sem ég hafði þá þegar tileinkað mér og við það hef ég staðið.“
Aftur að bókinni þinni, Limrum og léttum hugleiðingum, hún er þín fyrsta, ekki satt?
„Jú, það er rétt. Þetta er fyrsta bókin sem kemur út eftir mig á prenti. Í henni eru hnitmiðaðir textar í óbundnu máli. Ekki of langir og flestir svipaðir að lengd. Ég nota talsvert af gömlum orðum og orðasamböndum sem notuð voru á mínum ungdómsárum en unga fólkið í dag kannast ekki við. Þessar léttu hugleiðingar mínar eru skrifaðar í beinu framhaldi af sérhverri limru í bókinni.“
Einskonar ævisögubrot eða hvað?
„Nei alls ekki. Að vísu eiga hugleiðingarnar oftast nær við einhver rök að styðjast og mína reynslu af lífinu. Þó ekki þannig að megi kallast ævisögubrot nema að litlu leyti.“
En limrurnar sjálfar?
„Þar hef ég að markmiði að meiða engan og líka fer ég varlega í öll neðan-mittis-skrif. Mitt markmið var að skrifa í frekar gamansömum tón og ef einhverjir sem lesa þessa bók eru sama sinnis þá er tilganginum náð,“ segir Þorsteinn G. Þorsteinsson rjúpan um bók sína, Limrur og léttar hugleiðingar.