Fara í efni
Menning

Erlend dauðarokksveit á tónleikum í kvöld

Devine Defilement. Mynd: aðsend

Tónleikar verða í Deiglunni í kvöld, upphitunartónleikar fyrir tónlistarhátíðina Mannfólkið breytist í slím, sem verður haldin í sumar. Viðburðurinn er í raun sögulegur, segir í fréttatilkynningu, en samkvæmt heimildum skipuleggjenda verður þetta í fyrsta sinn sem erlend dauðarokkshljómsveit kemur fram á Akureyri. Það er sveitin Anime Torment frá Tékklandi sem kemur fram ásamt reykvísku reynsluboltunum í Devine Defilement.

Einnig koma akureyrsku hljómsveitirnar Sót og Dream The Name sem báðar hafa gert það gott í frjórri grasrótarsenu bæjarins. Tónleikarnir hefjast stundvíslega klukkan 20:00. Hljómsveitir koma fram í eftirfarandi röð:

  • 20:00 – Sót
  • 20:30 – Dream The Name
  • 21:00 – Anime Torment
  • 22:00 – Devine Defilement

 

Mannfólkið breytist í slím. T.v. Mynd frá tónleikum MBS og t.h. merki MBS.

Vilja auðga menningarlífið með áherslu á jaðarkúltur

Tónlistarhátíðin Mannfólkið breytist í slím fer fram 17. - 19. júlí á Akureyri. Hátíðin er kennd við listakollektífið MBS sem hefur haldið hátíðina síðan 2018. MBS hefur verið starfandi á Akureyri frá árinu 2010 og á þeim tíma staðið fyrir reglulegu viðburðahaldi auk tónlistarútgáfu sem nú telur 20 plötur. Helsta markmið MBS, segir enn fremur í tilkynningunni, er að auðga menningarlífið norðan heiða á forsendum svæðisins með áherslu á jaðarkúltúr. Von er á fleiri upphitunartónleikum og verða þeir auglýstir síðar.

Tónleikarnir í kvöld eru samstarfsverkefni MBS og Reykjavík Deathfest. Reykjavík Deathfest er hátíð tileinkuð jaðarrokki sem hefur unnið mikilvægt starf í þágu tónlistarmenningar á Íslandi auk þess að flytja reglulega inn fyrsta flokks þungarokkssveitir.

Viðburðurinn á Facebook.