Elísabet sigraði í hæfileikakeppninni
Hæfileikakeppni Akureyrar var haldin í menningarhúsinu Hofi í gær í þriðja sinn, en hún er hluti barnamenningarhátíðar sem er í fullum gangi víða um bæinn. Sigurvegari í hæfileikakeppninni að þessu sinni var Elísabet Davíðsdóttir, 11 ára, með dansatriðið Ring Around the Roise. Hún hefur æft dans frá fjögurra ára aldri.
Alls komu 69 börn og ungmenni í 4. til 10. bekk fram í 32 atriðum á stóra sviðinu í Hamraborg. „Fjölskyldur og vinir létu sig ekki vanta og var góður rómur gerður að frammistöðu unga fólksins,“ segir í tilkynningu frá Akureyrarbæ.
„Ég er rosalega glöð og þakklát yfir að hafa unnið. Hugmyndin að atriðinu kemur frá kennurunum mínum hjá Dansstúdíó Alice. Atriðið er líka að fara á heimsmeistaramótið Dance World Cup í San Sebastían á Spáni í sumar,“ er haft eftir Elísabetu í tilkynningunni.
Í öðru sæti í hæfileikakeppninni varð Jóhann Valur Björnsson sem spilaði frumsamið efni á flygil, og í þriðja sæti hljómsveitin Brekkubræður; Egill Ásberg Magnason, Emil Halldórsson, Sigurður Hólmgeirsson, Birgir Ívarsson og Tómas Bjarkason.
Sérstök aukaverðlaun fékk hópurinn Saumaklúbburinn sem tók lagið Kúst og fæjó. Í Saumaklúbbnum eru Katrín Birta Birkisdóttir, Katrín Markúsdóttir og Una Lind Daníelsdóttir.
Hæfileikakeppni Akureyrar er styrkt af Barnamenningarsjóði Akureyrar og haldin af Félagsmiðstöðvum Akureyrar í samstarfi við menningarhúsið Hof.
Hér má sjá fleiri myndir úr Hofi í gær.