Fara í efni
Menning

Ég er enginn kollhnísamaður

Kristinn G. Jóhannsson skólastjóri settist í helgan stein, eins og það er kallað, um aldamótin. Hafði þá stýrt tveimur skólum í um það bil hálfan fjórða áratug alls, eins og fram kom í öðrum hluta spjalls hans við ritstjóra Akureyri.net sem birtist í gær. Nú er komið að lokakafla þessa þríleiks í tilefni sýningarinnar Að sjötíu árum liðnum sem Kristinn opnaði í Mjólkurbúðinni á laugardaginn.

Þegar skólastjórinn lét af störfum vildi svo vel til að Kristinn G. Jóhannsson listmálari hafði meiri tíma aflögu en áður og mætti tvíefldur til leiks. 

– Ég lærði til þessa, sagði hann um myndlistina eins fram kom í gær. – Var tiltölulega fljótur að afla mér kennararéttinda en þetta tók mig miklu lengri tíma í skóla, að læra það sem ég gat síðan ekki sinnt að ráði fyrr en allra síðustu árin. En málaði samt allan tímann.

– Ég var æði oft kennari að hugsjón, vildi láta eitthvað sjást eftir mig í skólunum sem ég var í, það var líka skapandi starf í sjálfu sér, að búa til skóla. Ég var fyrsti skólastjóri Gagnfræðaskólans í Ólafsfirði og líka sá fyrsti í Bröttuhlíðarskóla á Akureyri. Skóla þarf einhvern veginn að búa til og ekki ætla ég að dæma þau ár sem tímasóun, fjarri því; mér fannst ég koma ýmsu til leiðar á þeim vettvangi.

Eyrin

Myndirnar sem Kristinn sýnir nú í Mjólkurbúðinni urðu til eftir daglega göngutúra um Innbæinn. Fallegar myndir og kæmi ekki á óvart þótt íbúar annars staðar í bænum öfundi Innbæinga.

– Þarftu ekki að fara að ganga um Eyrina, spyr ég. Uppalinn þar en reyndar löngu fluttur burt. Auðvitað þykir manni alltaf vænt um „sitt“ hverfi.

– Sjáðu þessi hús, segir Kristinn strax og bendir, Eyrarpúki sjálfur á yngri árum. – Þetta er Norðurgata 6 og þarna átti Ósvald trillukarl heima, það er Norðurgata 13. Þetta eru tvö hús sem skera sig dálítið úr af því þau eru svo glaðlega máluð.

Enn beinist fingur listamannsins að húsi á Eyrinni.

– Í þessu bjó Árni Sörenson bifvélavirki. Af honum keypti ég Fiat ´37 módel. Hann var með bilaðan startara.

Eftir sekúndubrot af þögn heyrist svo, ögn lægra en áður.

– En það fylgdi honum sveif.

Litir

Þú nefnir litskrúðug hús á Eyrinni og fallegir litir eru áberandi á sýningunni í Mjólkurbúðinni. Þú hefur ekki alltaf verið maður bjartra lita, er það?

– Nei, í Edinborg voru tveir kennarar sem höfðu mest áhrif á mig, bæði voru þau hógvær í litanotkun og ég hafði það með mér. Svo var nú ekki mikið litskrúð á Patreksfirði. Auðvitað var hægt að finna það eins og annars staðar en ég kaus að halda mig við þennan hóflega lit, grátóna, og fannst það eiga vel við bátana og húsin og þessi beru fjöll sem þar voru fyrir ofan. Það hentaði prýðilega, og þegar ég kem í Ólafsfjörð er það sama uppi, það er að vísu miklu grösugri sveit en þar held ég mig líka við það lengi vel að mála í þessum gráu tónum. Fyrsta sýningin mín í Bogasalnum hún var með þessum gráu málverkum.

– En ég spara litinn hvergi núna, segir Kristinn svo, og brosir. – Er kominn á ystu mörk sums staðar, held ég, hvað þetta er litglatt og fjörugt í framan, gott ef málverkin eru ekki skælbrosandi framan í þessa Innbæjarsól.

Brekkurnar hafa verið litglaðar lengi, ekki síður þínar en þær sem við höfum alltaf fyrir augunum.

– Já, ég fór að gefa þessu lausan tauminn, eins og ég hafði gert með gráa litinn áður. Af því að Akureyri er eiginlega að hverfa í skóg þá fór það að hafa áhrif, sérstaklega þessar brekkur sem eru umgjörð um gömlu Akureyri og þessi elstu núlifandi hús bæjarins. Fyrst var bara að sækja litinn, að ganga til litgrasa í umhverfi mitt, eins og ég hef orðað það, og mála út frá því. En ég endurtek að núna mála ég meira það sem ég sé með augunum.

Sandpappír

Kristinn bendir í suðausturhorn vinnustofunnar. Þar geymir hann Vaðlaheiðina; nokkrar myndir úr seríu sem hann kallaði Vor um Vaðla.

– Pabbi var smiður og þeir láta ekki frá sér smíðisgrip nema vera búnir að pússa hann vel með sandpappír númer 120. Ég fór að nota hann líka og náði þannig fram alls konar litbrigðum með því að mála í mörgum lögum og pússa svo yfir þannig að undirlitirnir komi í gegn.

– Þetta er eitt dæmið um það hvernig maður fikrar sig áfram. Þarna gat ég gert þessar myndir án þess að mála alla skaflana eða hæðirnar eða gilin í heiðinni heldur notað litina úr henni og svo þessa aðferð til að pússa yfir og ná fram undirlitnum.

– Það var talað um að myndirnar líktust vefnaði. Forfeður mínir í Svarfaðardal voru taldir góðir vefarar og af þessu svarfdælska kyni koma líka góðir smiðir. Pabbi og tveir bræður hans verða smiðir, en svo er eins og það endi. Minn leggur er ekki í smíðum en ég gat samt komið hvoru tveggja að.

Varð svo skortur á sandpappír eða var bara komið að næsta kafla? Er ferillinn mjög kaflaskiptur?

– Já, hann skiptist í períódur, og ég læt ekki laust fyrr en ég þykist vera búinn að ná því sem ég kann og get. Þá kannski fer ég að þreifa mig út fyrir það.

Birta

– Sennilega er þetta bara ístöðuleysi, segir hann og hlær. – Menn eiga auðvitað að mála bara sama málverkið allan tímann! Stundum finnst mér ég reyndar vera að gera það þótt útkoman sé mismunandi.

Svo eru það þessar röndóttu myndir, segi ég og bendi í hina áttina.

– Já, ég var með sýningu á Listasafninu upp úr aldamótum, þar sem voru sandpappírsmyndirnar – aðallega fjöllin í Svarfaðardal og fjöllin hér í kring – og svo dálítið af þessum röndóttu. Eftir því sem hallar á og maður fer að sjá aðeins minna verður maður að búa til sína eigin birtu svo verði ratljóst í heiminum fyrir mann. Síðustu ár segist ég alltaf vera að mála birtuna. Hún er aðalatriðið.

– Um 1980 kom tímabil þar sem ég gerði grafík, segir Kristinn og gjóar augunum á fallegt verk á vegg. – Ég sótti efnið í þetta inn á Minjasafn, sá þar gamlar fjalir eða skáphurðir og teiknaði upp og skar í dúk og þrykkti. En svo lauk því, ég vildi heldur hafa frjálsari hendur en á skurðarjárni og hvarf aftur að málverkinu.

Kristinn er sem sagt sannarlega ekki alltaf að mála sömu myndina ...

– Breytingar verða reglulega en ég er samt enginn kollhnísamaður. Sennilega er mesta breytingin núna – og hún er afgerandi – að ég er farinn að mála eins og hin börnin! Mála það sem fyrir mér verður; það sem ég sé með augunum, eins og ég hef áður sagt.

Í gegnum tíðina hefur Kristinn myndskreytt fjölda bóka, frægastar líklega Nonnabækurnar og nokkrar þjóðsögur. Og mörg portrett hefur hann einnig málað – mannamyndir, meðal annars Akureyrarskáldin sem hanga á Amtsbókasafninu.

– Mér fannst þau þurfa að lifa, skáldin okkar. Þess vegna málaði ég þau og fékk að gefa bókasafninu svo þau gætu verið áfram innan um bækur, og innan um fólk. Ég held að þessir blessaðir menn sem voru að yrkja hér og halda uppi einhverju ljóðrænu í bænum myndu annars týnast. Svo á ég nokkra kennara uppi í Menntaskóla en ég held að menn séu hættir að mála portrett. Er það ekki komið úr tísku?

Nærri aldarfjórðungur er síðan Kristinn afklæddist skólastjóragallanum hinsta sinni. Samkvæmt kerfinu mátti hann teljast gamall þá en verður þó nema 88 ára á næsta afmælisdegi, í desember.

Það hlýtur að skipta máli að hafa eitthvað við að vera sem maður hefur gaman af.

– Burtséð frá aldri verður fólk að hafa eitthvað að gera, segir Kristinn. – Ég er svo heppinn að hafa þetta áhugamál sem ég gat snúið mér að þegar hinu lauk og það er munaður að geta gengið til þessarar vinnu á hverju morgni.

– Ég vinn ekki lengi nú orðið en reyni að hafa morgnana fyrir þetta og finn mér svo eitthvað annað. Enda er málverk þannig að það þýðir ekki að standa við vinnu til að þess að vera að vinna, maður þarf að stefna að einhverju á hverjum degi og svo tekst það eða mistekst. En maður stendur ekki frá níu til fimm og þykist vera að búa til kúnst allan tímann.

– Það er líka frelsi sem fylgir þessu. Kennarar þurfa að mæta eftir stundaskrá alla sína tíð en loksins þegar maður er orðin frjáls af því þá fer stundaskráin ekki úr hausnum og maður heldur áfram að mæta samkvæmt henni. Nú í gönguferðir og maleríið.

  • Sýning Kristins í Mjólkurbúðinni stendur til 20. október. Hún er opin daglega á milli klukkan 14.00 og 17.00.