Fara í efni
Menning

120 herbergja Íslandshótel og Skógarböðin stækkuð verulega

Teikning af hótelinu sem rísa mun steinsnar frá Skógarböðunum við rætur Vaðlaheiðar.

Hótelið sem rís á næstu misserum við Skógarböðin verður rekið af Íslandshótelum. Hjónin Finnur Aðalbjörnsson og Sigríður María Hammer, eigendur Skógarbaðanna, reisa bygginguna en hafa samið við þessa stærstu hótelkeðju landsins um að taka að sér reksturinn. 

Skógarböðin sjálf verða stækkuð verulega samtímis því að hótelið rís. Þau verða rúmlega tvöfalt stærri en í dag og að framkvæmdum loknum verður samfellt baðlón frá hótelinu að núverandi húsnæði baðanna.

Á hótelinu verða 120 herbergi, öll tveggja manna, þar af 12 svítur.

Hótelið verður í tveimur álmum. Önnur álman verður fjögurra hæða en hinn fimm, fimmta hæðin inndregin. Þar verður 220 manna ráðstefnusalur og bar.

Svokallað fellingaleyfi fékkst fyrir nokkru og hafa Finnur og hans menn þegar fellt þau tré sem nauðsynlegt er vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Þar er um að ræða tiltölulega mjótt svæði eins og sést á myndunum hér að neðan. Enginn trjágróður var á eyrinni í fjöruborðinu þar sem hótelið rís.

Einnig fékkst leyfi til þess að moka til prufu á svæðinu þar sem nýr hluti baðanna verður en að öðru leyti eru framkvæmdir á undirbúningsstigi.

Stefnt er að því opna hótelið eftir um það bil tvö ár, vorið 2026. 

Mynd: Þorgeir Baldursson

  • Ný mynd af af svæðinu þar sem undirbúningur framkvæmda er hafinn. Til að lesendur glöggvi sig á umfanginu hefur Akureyri.net litað þessa fleti, en rétt að taka fram er ekki um nákvæm stærðarhlutföll að ræða.
  • Græni kassinn er núverandi hús Skógarbaðanna - ljósblái flöturinn eru böðin sjálf í dag.
  • Dökkblái flöturinn sýnir viðbótina við böðin; þau verða rúmlega tvöfalt stærri en nú.
  • Rauði flöturinn er hótelið sem rís í fjöruborðinu.

Hjónin Finnur Aðalbjörnsson og Sigríður María Hammer. Á svæðinu þar sem leyfi fékkst til að grafa til prufu verður hinn nýi hluti Skógarbaðanna og hótelið í fjarska, handan gröfunnar fyrir miðri mynd. Mynd: Skapti Hallgrímsson 

Lítil eyja verður í nýja hluta baðanna þar sem þessi fjögur háu, fallegu tré munu standa áfram.


Aðkoma að hótelinu verður frá Eyjafjarðarbraut eystri þar sem vegarspotti er þegar fyrir hendi, sá rauðmerkti á myndinni. Mynd: Þorgeir Baldursson.