Fara í efni
Mannlíf

Vilja auka heilsulæsi með nýju smáforriti

LifeTrack appið kennir notendum að halda utan um sína daglegu næringu og hafa sínar orkutölur nokkuð á hreinu, hvort sem markmiðið er að styrkja sig, þyngja eða létta, og/eða öðlast betri orku. Akureyringarnir Ingi Torfi og Linda Rakel standa á bak við appið.

Akureyringarnir Ingi Torfi Sverrisson og Linda Rakel Jónsdóttir, hafa hjálpað fjölda fólks að hugsa betur um heilsuna í gegn um fyrirtæki sitt ITS Macros. Með tilkomu LifeTrack appsins, sem þau voru að setja á markað, hafa þau stigið enn eitt skrefið í þá átt að aðstoða fleiri landsmenn í átt að betri heilsu.

Eins og Akureyri.net hefur sagt frá er LifeTrack heilsuappið byltingarkennd nýjung sem hjálpar fólki ekki bara við að fylgjast með mataræði sínu heldur styður það notendur á víðtækan hátt til betra lífs.

Margir Akureyringar þekkja vel til Inga Torfa og Lindu Rakelar, en þau hafa m.a. verið öflug í crossfit samfélaginu í bænum. Þá hafa margir bæjarbúar farið á námskeið hjá þeim í macros fræðum í gegn um fyrirtæki þeirra ITS Macros.

Nauðsynlegt að borða rétt magn af næringarefnum

„Macros þýðir næringarefni og snýst um það að telja orkuefnin; kolvetni, prótein og fitu. Þessi næringarefni þarf fólk að borða í ákveðnu magni og það gefur ákveðnar hitaeiningar,“ segir Ingi Torfi þegar þau hjónin eru beðin um að útskýra Macros hugmyndafræðina. Segja þau að fyrst sé fundin út orkuþörf viðkomandi út frá ákveðnum forsendum. Þessi útreikningur gefur ákveðna tölu sem fólk miðar við til þess að leiðbeina þeim um magn matar. Þessi tala geti breyst eftir því hvernig lífstíll hvers og eins er hverju sinni t.d. hvað varðar hreyfingu og mismunandi markmið. Fram til þessa hefur fólk fengið þjálfara til þess að aðstoða sig við að finna út sína orkutölu og síðan þurft að vigta og skrá matinn sinn í ákveðinn tíma til þess að fylgjast með réttu magni orkuefna. Í LifeTrack appinu er sjálfvirk reiknivél sem finnur þessa tölu á nokkrum sekúndum með hliðsjón af forsendum notenda. Reiknivélin var útbúin með aðstoð frá næringafræðingi og íþróttafræðingi. Það þarf ekki að vigta matinn frekar en fólk vill því í LifeTrack appinu er fjöldi matvara og máltíða magnteknar í skeiðum og stykkjum sem gerir skráninguna auðveldari en nokkru sinni fyrr.

Rannsóknir sýna að stór ástæða ofþyngdar er vegna þess að fólk innbyrðir fleiri hitaeiningar en það brennir. Hitaeiningar hafa alltaf verið í gildi, eru í gildi og verða í gildi. Þær eru ekki tískubóla. Þetta eru engin ný vísindi, svo lengi sem við höldum réttu magni af hitaeiningum og fáum þær úr hverjum orkuflokki fyrir sig þá erum við í grunninn í merkilega góðum málum.

Búið er að forskrá um 9.000 matvörur inn í appið en hjónin hafa fengið aðstoð frá börnunum sínum við verkið. Fjölskyldan hefur því eytt ófáum stundum út í matvöruverslunum við að skanna inn matvörur inn í appið.

Heillaðist af macros hugmyndafræðinni

Macros er ekki eitthvað sem Ingi Torfi og Linda Rakel fundu upp á heldur er um að um ræða rótgróna hugmyndafræði sem skilað hefur fólki miklum árangri. Þau færðu hins vegar aðeins aðferðina í notendavænni búning til að aðstoða sína viðskiptavini í gegnum fyrirtæki sitt ITS Macros. Sjálfur kynntist Ingi Torfi Macros hugmyndafræðinni í gegnum amerískan þjálfara og heillaðist algjörlega. „Ég sá fljótt að þetta virkaði ekki bara fyrir mig heldur fyrir öll. Það að borða rétt magn af mat og næringarefnum í hverjum flokki, af próteinum, kolvetnum og fitu. Það gefur fólki magnaðan árangur. Ég fór að segja fólkinu í kringum mig frá þessu og allt í einu fór þetta sama fólk sem hafði verið að reyna að léttast, þyngjast eða bæta sig í sinni íþrótt að ná sínum markmiðum.“ Eitt leiddi af öðru, og árið 2020, í miðjum Covid faraldri ákváðu Ingi Torfi og Linda Rakel að taka skrefið til fulls og fara á fullt að kenna fólki þetta grunnþrep í fæðupýramídanum. Linda Rakel var þá að vinna í banka og Ingi Torfi sem fasteignasali en þau sögðu bæði upp sínum störfum og stofnuðu ITS Macros. „Við ákváðum bara að kýla á þetta. Við vildum hjálpa fólki. Og þetta hefur verið mjög skemmtilegt ferli. Krefjandi en líka gefandi,“ segir Linda Rakel.

Við viljum að fólk sé með heilsuna í vasanum. Að það sé meðvitað um líðan sína og viljum hvetja það áfram til þess að láta gott að sér leiða og ögra sér.

Íslenskt app á íslensku

Undanfarin fjögur ár hefur fyrirtækið vaxið og dafnað en forsenda þess að borða í réttum næringarhlutföllum er að hafa verkfæri sem hjálpar til við útreikningana. Fólk hefur nýtt ameríska appið Myfitnesspal en það hefur ekki þótt henta nógu vel fyrir íslenskar aðstæður og farið í taugarnar á mörgum. „Það sem við lærðum af Myfitnesspal appinu og okkar fólki sem var að nota það, var að fólki fannst það flókið og of mikil vinna fólgin í því að nota það. Þetta er amerískt app – smáforrit – með amerískum vörum og mælieiningum. Fyrir mörg sem voru að byrja í þessu var þetta app mikil hindrun sem einnig fólst í tungumálaáskorunum fyrir eldri notendur. LifeTrack appið leysir allan þennan vanda enda er það á íslensku og hugsað algjörlega út frá þörfum fólks á Íslandi,“ segir Ingi Torfi.

Appið var formlega sett í loftið á fimmtudaginn síðasta af háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherranum Áslaugu Örnu og var það mikil gleðistund fyrir hjónin. „Við erum búin að eyða gríðarlegum tíma og peningum í þetta og það hefur verið stórkostlegt að fá öll þessi góðu viðbrögð eftir alla þessa vinnu. Fólki finnst viðmótið fallegt og appið notendavænt. Við höfum verið að vinna með frábæru fólki við gerð appsins, að stóru leyti héðan að norðan. Stefna hefur staðið sig frábærlega og svo hefur Skagfirðingurinn Linda Fanney Valgeirsdóttir, lögfræðingur og nýsköpunarsnillingur, átt stóran þátt í að ýta okkur áfram.“


LifeTrack appið fæst inn á App Store og Playstore. Appinu er einfaldlega hlaðið niður í síma, hægt er að prófa það frítt í þrjá daga en síðan er hægt að velja um þrjár áskriftarleiðir. Áskriftarverð er sambærilegt og einn hádegisverður á mánuði.

Margir að borða hollt en rangt magn

Einhver kann að spyrja hvort þessi næringarhlutföll séu ekki bara enn einn töfrakúrinn þar sem fólki er lofað undraverðum árangri bara ef það fylgir kúrnum.

„Rannsóknir sýna að stór ástæða ofþyngdar er vegna þess að fólk innbyrðir fleiri hitaeiningar en það brennir. Hitaeiningar hafa alltaf verið í gildi, eru í gildi og verða í gildi. Þær eru ekki tískubóla. Þetta eru engin ný vísindi, svo lengi sem við höldum réttu magni af hitaeiningum og fáum þær úr hverjum orkuflokki fyrir sig þá erum við í grunninn í merkilega góðum málum. Ástæðan fyrir því að mörg sem borða ótrúlega hollt og hreyfa sig mikið en hafa ekki náð árangri er vegna þess að hitaeiningarnar eru bara ekki rétt stilltar miðað við markmið viðkomandi. Í hnetum er fullt af hitaeiningum, sama með avókadó. Þetta er hollur matur en ef þú borðar rangt magn af honum, þá rjúka hitaeiningarnar upp. Þess vegna vildum við búa til þetta app, til þess að hjálpa fólki að átta sig á þessu og létta vinnuna við að reikna út sínar tölur. Það sem við erum að kenna fólki er álíka erfitt og námsefnið í fyrsta bekk í grunnskóla. Þetta er ekki flóknara en það, og það besta við þetta er að þetta breytist ekkert sem gerir þekkinguna verðmæta,“ segir Ingi Torfi og Linda Rakel bætir við að í LifeTrack séu engin boð og bönn. Fólk tekur einfaldlega sjálft ábyrgð á sínu mataræði og velur í hvers konar mat það vill eyða sínum hitaeiningaskammti. Mataræðið þarf því ekki að verða einhæft, sem gerist oft á ákveðnum kúrum. Þá segja þau að þegar fólk er einu sinni búið að skilja þetta og sjá árangur þá er ekki aftur snúið. Þótt fólk taki sér pásur, t.d. í ferð til útlanda, eða í kringum stórveislur, er enginn skaði skeður. Það veit hvað það þarf að gera og fer ekki aftur í gamla farið.

 Ástæðan fyrir því að mörg sem borða ótrúlega hollt og hreyfa sig mikið en hafa ekki náð árangri er vegna þess að hitaeiningarnar eru bara ekki rétt stilltar miðað við markmið viðkomandi. Í hnetum er fullt af hitaeiningum, sama með avókadó. Þetta er hollur matur en ef þú borðar rangt magn af honum, þá rjúka hitaeiningarnar upp. 

Hjónin Ingi Torfi og Linda Rakel eru bæði menntaðir viðskiptafræðingar en eru einnig markþjálfar og næringarþjálfarar.

Algengt að afreksíþróttafólk borði of lítið

Talið berst að íþróttafólki og þeim árangri sem það gefur að halda markvisst utan um næringu sína. Hjónin hafa unnið töluvert með afreksfólki í íþróttum og þar hefur mælanlegur munur sést á árangri þegar mataræðið er tekið fastari tökum og passað upp á rétt magn næringarefna hjá hverjum og einum. „Mjög algengt er að afreksíþróttafólk sé að borða alltof lítið. Það er alveg magnað að sjá framfarir og bætingar hjá íþróttafólki þegar það fer að borða í takt við æfingaálag og markmið,“ segir Ingi Torfi. Dæmi eru um að heilu íþróttaliðin hafi nýtt sér þjónustu þeirra með góðum árangri. „Við sjáum fyrir okkur að þjálfarar geti notað LifeTrack appið til að hjálpa sínu fólki, hvort sem um er að ræða einkaþjálfara, næringarfræðinga eða þjálfara hjá heilu íþróttaliðunum,“ segir Ingi Torfi og bætir við vonandi átti heilbrigðisstarfsfólk sig líka á kostum appsins og geti bent skjólstæðingum sínum á appið til þess að bæta næringarlæsi sitt á einfaldan og ódýran hátt. „Við sjáum fyrir okkur að þetta geti verið byrjun á ákveðinni heilsubyltingu á Íslandi. Kennum Íslendingum næringarlæsi með LifeTrack.“

LifeTrack appið fékk Lóu nýsköpunarstyrk en er að öðru leyti algjörlega fjármagnað af stofnendum. Áslaug Arna, nýsköpunarráðherra, setti LifeTrack heilsubyltinguna af stað í síðustu viku.

Efnisveita með hvatningu, æfingum og fræðslu

Heilsa snýst þó ekki bara um mat og það hafa Ingi Torfi og Linda Rakel líka verið dugleg að minna á. „Heilsa er svo miklu meira en bara matur og hreyfing. Það er líka hugarfar og fólk þarf bæði að hugsa um líkamlega og andlega líðan, svefn og félagslega þáttinn,“ segir Ingi Torfi en stór hluti af starfinu hjá ITS Macros hefur ekki aðeins snúist um það að kenna fólki að borða í réttum hlutföllum næringarefna heldur að peppa það upp, auka sjálfstraustið, fá það til að ögra sér, horfa inn á við og sjá lífið í nýju ljósi og fara út fyrir þægindarammann. Þennan hluta er líka að finna í nýja LifeTrack appinu en þar er heilsuefnisveita með ógrynni af fróðleik, æfingum og hvatningu. Þar er t.d. að finna stuttar peppsögur, fróðleikur frá Thelmu Rún næringarfræðingi, kvöldsögur um ekki neitt sem lesnar eru af Maríu Pálsdóttur leikkonu og eru ætlaðar til þess að fá fólk til þess að slaka á og fara með hugann í smá ferðalag. Þá eru í appinu góð ráð til þess að bæta svefn, æfingamyndbönd fyrir heimaæfingar, jóga - og hugleiðsluæfingar sem og öndunaræfingar, svo fátt eitt sé nefnt. Í raun er appið því eins og sambland af mörgum smáforritum. Allt á einum stað og á íslensku. „Við viljum að fólk sé með heilsuna í vasanum. Að það sé meðvitað um líðan sína og viljum hvetja það áfram til þess að láta gott að sér leiða og ögra sér. Á hverjum degi fær fólk sem er í appinu áskorun, verkefni sem það þarf að leysa, eins og t.d. að hringja í gamlan vin eða skrifa niður það sem það er þakklát fyrir. Öll þessi litlu verkefni eru hugsuð til þess að fá fólk til þess að staldra við og hugsa um eitthvað annað en það er vant að hugsa um,“ segir Ingi Torfi.

Þetta app varð fyrst og fremst til af því að við viljum koma þessari þekkingu til stærri hóps landsmanna sem hefur reynst okkar viðskiptavinum hjá ITS Macros svo vel. Við erum fullviss um að aukið næringar- og heilsulæsi muni breyta heilsu landsmanna og erum því ótrúlega spennt fyrir heilsubyltingu LifeTrack.

Vilja koma þekkingu til stærri hóps fólks

LifeTrack appið er því í raun heilsuefnisveita þó næringarskráning sé grunnur þess.  Áður en appið fór í loftið snérist aðaláherslan um að forskrá fjölbreytta matvöru og rétti af veitingastöðum inn í appið. Þá eru þar líka alls kyns uppskriftir sem búið er að magntaka, allt til þess að létta fólki lífið við skráningu. „Fyrir þá sem hefðu aldrei nennt að vigta matinn ofan í sig þá er hér komið verkfæri þar sem fólk getur 80-90% verið með þetta á hreinu. Og ef þú gerir þetta 80-90% í einhvern tíma, þá skilar það frábærum árangri og fyrst og fremst þekkingu. Í þekkinguni liggur svo stóra breytingin,“ segir Ingi Torfi. Hjónin ætla þó ekki að láta hér við sitja en margar hugmyndir eru á teikniborðinu varðandi LifeTrack. „Í nánustu framtíð munu notendur geta skráð inn sín gildi og appið kemur þá með tillögur að því hvernig hægt er að raða deginum upp matarlega séð,“ segir Ingi Torfi og slær botninn í þetta samtal með þessum orðum;  „Þetta app varð fyrst og fremst til af því að við viljum koma þessari þekkingu til stærri hóps landsmanna sem hefur reynst okkar viðskiptavinum hjá ITS Macros svo vel. Við erum fullviss um að aukið næringar- og heilsulæsi muni breyta heilsu landsmanna og erum því ótrúlega spennt fyrir heilsubyltingu LifeTrack.“

  • LifeTrack appið fæst inn á App Store og Playstore. Appinu er einfaldlega hlaðið niður í síma, hægt er að prófa það frítt í þrjá daga en síðan er hægt að velja um þrjár áskriftarleiðir. Áskriftarverð er sambærilegt og einn hádegisverður á mánuði.