Soroptimistar færa eldra fólki bækur
Eitt af föstum verkefnum Soroptimistaklúbbs Akureyrar er að færa eldra fólki, og þeim sem ekki komast á Amtsbókasafnið, bækur heim í hús. Fólk pantar bækur hjá safninu sem tekur bækurnar til og Soroptimistar sjá um að fara með bókasendingarnar annan hvern fimmtudag og taka í leiðinni bækur sem þarf að skila.
Á Íslandi eru starfandi 19 Soroptimistaklúbbar, þar af einn á Akureyri, stofnaður 1982. Í klúbbnum eru nú 38 konur sem vinna að markmiðum Soroptimista hér í heimabyggð.
Soroptimistar eru alþjóðleg samtök kvenna sem hafa það að markmiði að stuðla að jákvæðri heimsmynd, „þar sem samtakamáttur kvenna nær fram því besta sem völ er á,“ eins og segir á heimasíðu samtakanna. Þau vinna að bættri stöðu kvenna, „að mannréttindum öllum til handa sem og jafnrétti, framförum og friði með alþjóðlegri vináttu og skilningi að leiðarljósi.“
Helga Sigurðardóttir kemur færandi hendi með bækur.
„Þetta verkefni hefur verið í gangi nánast frá stofnun klúbbsins okkar í farsælu samstarfi við Amtsbókasafnið og fullyrða má að okkur þykir öllum vænt um þetta barn okkar,“ segir Bergljót Sigurðardóttir hjá Soroptimistaklúbbi Akureyrar.
„Það hefur alltaf verið gefandi að sinna því og þeir eru fjölmargir aldraðir sem hafa nýtt sér þessa þjónustu í gegnum árin og lýst bæði ánægju sinni og þakklæti. Nú er hins vegar svo komið að sendingum hefur fækkað mjög með tilkomu hljóðbóka og annarra rafrænna miðla. En á meðan einhver vill lesa bók höldum við þjónustunni áfram og hvetjum við fólk eindregið til þess að nýta sér hana og hafa samband við Amtsbókasafnið,“ segir Bergljót.