Rakel: „Á fjöllum er klukkan ekki neitt“
Rakel Hinriksdóttir fékk tækifæri til þess að vera skálavörður um tíma í sumar í Drekagili, við Öskju. Hún er listakona, skáld, náttúruverndarsinni og blaðamaður Akureyri.net og í dag birtist fyrsti hluti Drekadagbókar hennar. Í þeim verður að finna hugleiðingar, frásagnir og myndefni frá dvöl höfundar.
„Ég hef alltaf verið heilluð af óbyggðum, hvað sem það kann að merkja. Hvort það er fjarlægðin við manngerða veröld eða nálægðin við náttúruna, er erfitt að segja. Ég er einhversstaðar þarna á milli,“ skrifar Rakel í Drekadagbókinni.
Hún fékk far í Drekagil með Einari Hjartarsyni hjá Ferðafélagi Akureyrar en „hann sér um að útvega fjallaskálum félagsins lífsins nauðsynjar; þá helst olíu, gas og vistir,“ eins og segir í pistlinum. „Við vorum stödd í Herðubreiðarlindum þegar hann sagði þessa setningu, „á fjöllum er klukkan ekki neitt,“ og ég spáði lítið í það á þessari stundu, enda nýkomin í öruggt skjól frá þjóðveginum.“
Rakel segist fljótlega hafa komist að því að orð Einars hittu beint í mark. „Ég var ekki búin að vera lengi í Drekagili þegar mér fór að standa á sama um jafn mikið lítilræði og tímasetningu.“
Fyrsti pistill Rakelar: „Á fjöllum er klukkan ekki neitt“