Mannlíf
Ljósin tendruð í dag á jólatrénu á Ráðhústorgi
25.11.2023 kl. 06:00
Ljósin verða tendruð á jólatré Akureyringa á Ráðhústorgi síðdegis í dag, laugardag.
Hátt og reisulegt grenitré var fundið í bæjarlandinu og komið fyrir á torginu, að því er segir á vef Akureyrarbæjar. Fyrir aðventuna 2022 var ákveðið að hætta að flytja jólatré frá danska vinabænum Randers yfir hafið en eftir sem áður verða ljósin á trénu tendruð með kærri kveðju frá vinum Akureyringa í Danmörku, segir þar.
Dagskráin hefst að þessu sinni kl. 15.45 með því að Lúðrasveit Akureyrar undir stjórn Sóleyjar Bjarkar Einarsdóttur leikur nokkur létt jólalög en síðan er búist við að hinir óútreiknanlegu jólasveinar taki yfir dagskrána með þónokkrum látum og hurðaskellum.
Líklegt er að þeir hleypi nýjum ræðismanni Danmerkur á Norðurlandi, Geir Kristni Aðalsteinssyni, síðan að til að bera bæjarbúum kveðju frá Randers og þá flytur Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, stutta jólahugvekju.
Því næst kemur Freyja Rún Yannicksdóttir Hoeing á svið og kveikir ljósin á trénu fyrir hönd Norræna félagsins á Akureyri. Loks syngur Barnakór Akureyrarkirkju undir stjórn Sigrúnar Mögnu Þórsteinsdóttir áður en jólasveinarnir tralla klassísk jólalög með gestum á Ráðhústorgi. Að því búnu stíga þeir niður af sviðinu og bjóða gestum og gangandi að þiggja hollt jólagóðgæti úr pokum sínum.