Fara í efni
Mannlíf

Hrekkjavökutónleikar í Hofi á morgun

Þessi stjórnandi á fyrri hrekkjavökutónleikum var ekki beinlínis aðlaðandi!

Blásarasveitir Tónlistarskólans á Akureyri halda hryllilega hrekkjavökutónleika í Hamraborg, stóra salnum í Hofi á morgun, miðvikudaginn 30. október. Tónleikarnir hefjast kl. 18:00, aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Sóley Björk Einarsdóttir, sem stýrir þremur blásarasveitum skólans ásamt Emil Þorra Emilssyni, hefur byggt þessa tónleika upp undanfarin ár og fyllt Hamraborgina með skemmtilegum og „skelfilegum“ tónleikum, að því er segir í tilkynningu frá skólanum. Í ár verða krakkarnir í strengjasveit 3 sérstakir gestir þannig að reikna má með að allt að 70 upprennandi tónlistarmenn,  á aldrinum 7-20 ára, muni stíga á svið. „Þetta eru líklega metnaðarfyllstu hrekkjavökutónleikar landsins og öllu tjaldað til,“ segir í tilkynningunni.

Hamraborgarsalurinn verður skreyttur í anda Hrekkjavökunnar og hljómsveitarmeðlimir og stjórnendur verða í búningum. Ívar Helgason mun vera draugasögumaður „en allir góðir tónleikar verða að hafa sögumenn til að líma saman dagskrána. Það hefur verið húsfyllir á þessum tónleikum og fólk þurft frá að hverfa.“

Tónleikarnir verða sem fyrr segir á morgun, miðvikudaginn 30. október kl. 18:00 í Hofi. „Aðgangur ókeypis og tónleikagestir hvattir til að mæta í búningum. Tónleikarnir eiga að henta öllum aldurshópum en við vörum við ógurlegum skreytingum, búningum og hryllilega flottri tónlist.“