Mannlíf
Himinlifandi með fyrstu sumar- og bjórhátíðina
23.07.2023 kl. 16:35
Reynir Gretarsson vert á LYST var alsæll með hvernig sumar- og bjórhátíðin tókst í gær. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson
Mörg hundruð manns lögðu leið sína í Lystigarðinn í gær í prýðilegu veðri þegar haldin var Sumar- og bjórhátíð LYST.
Reynir Gretarsson, eigandi veitingastaðarins LYST, var himinlifandi með hvernig til tókst því hann renndi nokkuð blint í sjóinn að eigin sögn. Markmið Reynis er að fá meira líf í garðinn; að sem flestir njóti þess að vera í því listaverki sem Lystigarðurinn er, eins og hann orðar það svo skemmtilega. Miðað við aðsóknina í gær má gera ráð fyrir að hátíð af þessu tagi muni festa sig í sessi á þessum fallega stað.
Brugghús víða af landinu voru með framleiðslu sína á hátíðinni þannig að hægt var að smakka margskonar öl. Einnig var hægt að njóta matar auk þess sem tónlist var í hávegum höfð, bæði yfir daginn og í gærkvöldi.