Haggis og stóll úr viskítunnu! – MYNDIR
Maltviskífélag Norðurlands stóð fyrir Burns Night um síðustu helgi, eins og Akureyri.net greindi þá frá, til heiðurs Robert Burns, hinu ástsæla þjóðskáldi Skota. Burns var fæddur 25. janúar 1759 og hefur fæðingardegi hans lengi verið fagnað víða um heim, m.a. á Akureyri síðustu ár.
Samkvæmt hefðinni gæddu menn sér á haggis, skoskum rétti sem svipar til sláturs, dreyptu á viskíi og sungu saman. Snorri Guðvarðsson er formaður félagsins og kom þessari vinsælu skemmtun á koppinn í höfuðstað Norðurlands fyrir nokkrum árum.
Bræðurnir Björn og Pálmi Sighvatssynir úr Skagafirði eru fastagestir á Burns Night hjá Snorra og eiga það til að bregða á leik. Þegar þeir stigu á svið að þessu sinni varð Snorri formaður orðlaus – sem gerist ekki oft! Pálmi er bólstrari og hafði breytt stórri viskítunnu í forláta stól sem þeir færðu Snorra að gjöf. Setan er laus og undir henni töluvert rými þar sem til dæmis má geyma einhvers konar flöskur!
Magnús Ö. Friðriksson meistarakokkur eldaði haggis frá grunni ásamt föður sínum, Friðrik Magnússyni, og áður en dásemdin var snædd bar Magnús einn, stóran kepp í salinn með viðhöfn, Rachael Lorna Johnstone lék á fiðlu sína og í halarófunni upp að sviðinu var einnig Guðjón Ólafsson sem þar flutti hið þekkta ljóð Burns, Address to a Haggis, með miklum tilþrifum.
Frétt Akureyri.net um síðustu helgi: Til heiðurs Burns: Gie her a Haggis!