Grár litur víkur fyrir muskuðum pastel tónum
Gráir litir hafa verið áberandi á heimilium landsmanna undanfarin ár en nú kveður við annan og léttari tón. Starfsmenn Flügger lita á Akureyri sögðu Akureyri.net frá nýjustu tískustraumum í málningu og hvað væri að gerast með gráa litinn.
Grái liturinn ríkjandi of lengi
„Jú, grái tónninn er að víkja og litir eru að koma meira inn. Persónulega finnst mér grái liturinn hafa verið ríkjandi allt of lengi og það er gaman að sjá fólk velja eitthvað annað en hvítt og grátt inn til sín,“ segir Andri Sveinn Jónsson sölumaður hjá Flügger litum og heldur áfram; „Við erum að færa okkur mjúklega inn í meiri liti, ekki skæra liti heldur muskaða tóna, svona grásprengda liti af grænum og brúnum, sem og bláleitum og bleikum pastel litum. Þá fljóta ákveðnir gulir tónar einnig með.“ Aðspurður af hverju þessi viðsnúningur sé að verða núna segir hann; „Þetta er bara partur af tískunni. Litir ganga í hringi. Ég sé fyrir mér að eftir ákveðið langan tíma þá verða skæru litirnir komnir aftur í tísku. Nú er veggfóður líka að koma mikið inn aftur. Þetta eru bara hlutir sem ganga í hringi.“
Það var mikið að gera hjá málurum á Akureyri í september að sögn Andri og Ævars hjá Flügger litir á Akureyri. Veðurfar sumarsins var frekar slappt til málingarvinnu utandyra að september frátöldum.
Nútíma byggingar þola meiri liti
Þrátt fyrir að tískan segi að tímabært sé að mála með meiri litum er almenningur almennt séð frekar varkár í litavalinu. „Margir eru mjög hræddir við það að velja dökka liti því þeir halda að rýmið minnki og þrengist. Það getur vissulega alveg gerst en mikið af þessum litum sem eru í tísku í dag eru ekkert á þeim stað, fólk er yfirleitt ekki komið í það dökka liti að það þurfi að hafa áhyggjur af þessu. Þá er mikið af húsum í dag með miklu stærri gluggum en áður tíðkaðist og þar af leiðandi getur fólk leyft sér dekkri liti. Ljósin hafa líka breyst, birtan er betri og þægilegri. Þannig að ég myndi segja að byggingarstíllinn í dag, þ.e.a.s. stórir gluggar og jafnvel hátt til lofts, þoli almennt séð meiri liti. Arkitektar sem koma hingað hafa margir hverjir verið að reyna að velja öðruvísi og djarfari liti fyrir viðskiptavini sína. Sumir fara með á þennan vagn og eru ánægðir þegar upp er staðið, á meðan aðrir eru hræddir við þetta og halda sig við hvítt og grátt.“
Mött málning hefur sína kosti
En það eru ekki bara litatónarnir sem eru að breytast, efnin eru alltaf að þróast og verða umhverfisvænni, vandaðri og með minni eiturefnum. Þá er almenningur líka í auknu mæli farinn að spá í innihaldið og margir byggingaraðilar vilja velja umhverfisvænar lausnir til þess að ná Svansvottun á sínar byggingar. Andri Sveinn nefnir sem dæmi að ein vinsælasta innahússmálningin hjá Flügger sé aðeins í 1% gljástigi. Um akrýlmálingu sé að ræða, sem þrátt fyrir að vera svona mött, sé mjög þvottheldin og segir hann að tuskuför myndist ekki þegar af henni sé strokið. „Það er ekki langt síðan 10% glans var standard gljástig á innahússmálningu en nú er málningin orðin mattari og fólk er núorðið yfirleitt að taka 1, 5 eða 7 % gljástig innanhúss,“ segir Andri Sveinn og bætir við að auk þess að vera þægileg í þrifum þá njóti margir litatónar sín betur í möttu. „Ef veggurinn er ekki alveg sléttur og fínn þá felur líka mött málning slíkar misfellur miklu betur en glansmálning. Matta málningin hefur því ýmsa kosti.“
Þessi fallegi bleiktóna litur heitir Anna´s Closet og er gott dæmi um þessa mjúku tóna sem eru vinsælir núna.
Málað í september
Aðspurður út í málningasumarið á Akureyri, segir hann að það hafi ekki verið jafn gott og síðustu tvö ár. Minna var um það að fólk bæri á pallana hjá sér, kannski vegna þess að pallarnir voru minna notaðir vegna sólarleysis í sumar en síðan er líka vel hugsanlegt að fólk hafi klárað að bera á í Covid. „Þetta var mjög slappt sumar veðurfarslega séð. September var besti mánuður sumarsins og bjargaði málunum alveg hjá mörgum þegar kom að því að klára útiverkin, og það var bara alveg ofboðslega mikið að gera þá,“ segir Andri Sveinn.
Kemur konunni á óvart með nýjum lit á vegginn
Þó sumarið sé liðið, sem er almennt séð háannatími þegar málningarvinna er annars vegar, þá er nóg að gera í málningaverslunum landsins því þegar fólk fer að vera meira inni við eftir sumarið þá vilja margir fara að gera fínt í kringum sig. „Ein auðveldasta leiðin til þess að hressa upp á heimilið og gefa því nýja ásýnd er að mála einn vegg í lit. Sú breyting þarf heldur ekki að vera sérlega kostnaðarsöm,“ segir Andri Sveinn. Sjálfur kemur hann konunni reglulega á óvart með því að breyta um lit á heimilinu en það er ekki víst að allar eiginkonur tækju slíkum óvæntum uppákomum fagnandi. „Hún hefur a.m.k. ekki tekið illa í þær breytingar sem ég hef gert hingað til,“ segir Andri Sveinn og brosir en gefur ekkert uppi hvaða litur verður sá næsti sem hann prófar á einhvern vegg á heimilinu. Eitt er víst að hann verður ekki grár.
„Við erum að færa okkur mjúklega inn í meiri liti, ekki skæra liti heldur muskaða tóna, svona grásprengda liti af grænum og brúnum, sem og bláleitum og bleikum pastel litum. Þá fljóta ákveðnir gulir tónar einnig með,“ segir Andri. Sjálfur kemur hann frúnni reglulega á óvart með því að mála einn og einn vegg í lit heima.