Fara í efni
Mannlíf

Glæða bæinn lífi til styrktar góðu málefni

Bleikar októberdömur! Vilborg Jóhannsdóttir í Centro, til vinstri, og Inga Vestmann í Pedromyndum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Bleiki liturinn er áberandi í miðbæ Akureyrar og víðar þessa dagana eins og í október mörg undanfarin ár. Árlegir Dekurdagar – áður Dömulegir dekurdagar – hefjast í dag og standa til sunnudags; verkefnið felst meðal annars í því að selja bleikar slaufur, sem hengdar eru í ljósastaura eða aðra áberandi staði við heimahús og fyrirtæki, auk þess sem ýmis fyrirtæki í bænum standa fyrir margvíslegum uppákomum og veita afslátt af vörum.

Allt fé til Krabbameinsfélagsins

Árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélags Íslands, Bleika slaufan, hefur árum saman verið í október og þegar hugmyndin um Dekurdaga á Akureyri varð að veruleika árið 2008 ákváðu frumkvöðlarnir, Vilborg Jóhannsdóttir í versluninni Centro og Inga Vestmann í Pedromyndum, að allt fé sem safnaðist rynni óskipt til Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis og svo hefur verið frá upphafi.

Þær stöllur sögðu Akureyri.net í morgun að einungis örfáar slaufur væru eftir, en rétt er að benda á að reikningur Dekurdaga verður opinn til mánaðamóta. Það er nefnilega hægt að leggja málefninu lið þótt engin fáist slaufan!

  • Reikningur Dekurdaga – 565 - 14 - 403524, kennitala 491012-0210

Dekurdagar hefjast að þessu sinni í verslun Hagkaups, þar sem verður bleik gleðistund frá kl. 17.00 til 19.00 í dag, og á Glerártorgi þar sem dagskrá hefst kl. 20.00 og opið verður til 22.00. Annað kvöld verða margar verslanir í miðbænum opnar til kl. 22.00.

Guð blessi Ísland

„Október var þungur og eiginlega ekkert að gerast í bænum þá,“ svarar Vilborg, spurð að því hvernig Dekurdagarnir komu til á sínum tíma. „Sumarið búið og jólavertíðin ekki byrjuð,“ skýtur Inga inn í.

Vilborg fékk hugmyndina eftir spjall við sessunaut sinn í flugferð milli Akureyrar og Reykjavík, aðra konu í atvinnurekstri á Akureyri. Upphaflega markmiðið var að glæða bæinn lífi, fá konur til að gera sér glaðan dag, bæði Akureyringa og konur sem kæmu til bæjarins í því skyni.

Inga og Vilborg slógu til í október 2008 en fyrsta skiptið var ósköp lágstemmt, eins og Vilborg tekur til orða; það var nefnilega helgina eftir bankahrunið, nokkrum dögum eftir að Geir H. Haarde forsætisráðherra bað Guð að blessa Ísland.

Þær héldu hins vegar ótrauðar sínu striki og til varð góður hópur kvenna sem tók vildi taka þátt í verkefninu og alls kyns hugmyndir fæddust.

Á fjórða tug milljóna

„Við tengdum dekurdagana strax bleikum október, hófum að skreyta bæinn en byrjuðum ekki söfnunina fyrr en seinna.“

Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis hefur alls fengið á fjórða tug milljóna króna frá aðstandendum Dekurdaga. Á síðasta ári söfnuðust í fyrsta skipti meira en 5 milljónir króna og stefnan er að gera enn betur að þessu sinni.

Hver slaufa kostar 5.000 krónur og fyrirtæki sem skrá sig greiða 10.000 krónur og geta þá auglýst undir hatti Dekurdaga hvað er um að vera þar á bæ.

Vilborg hefur hnýtt slaufurnar öll þessi ár en Inga þeytist um bæinn og hengir þær upp. Nóg að gera á þeim bænum í september og október!

Sannarlega frábært framtak. Akureyri.net hvetur alla sem mögulega geta til að styrkja gott málefni, annað hvort með því að kaupa slaufu eða leggja inn á reikning Dekurdaganna.