Fara í efni
Mannlíf

Dádýr, andabringur, jólabjór, söngur og síld

Jólahlaðborð Múlabergs verður í boði öll föstudags- og laugardagskvöld frá 15.nóv-14.des. Þá verður sérstakt fjölskyldujólahlaðborð þann 8. nóvember þar sem vel verður gert við ungu kynslóðina. Myndir: Múlaberg

Margir hafa það sem fastan sið að gera sér dagamun í mat og drykk í aðdraganda jólanna. Akureyri.net hefur tekið saman yfirlit yfir helstu jólamatseðla og jólahlaðborð á veitingastöðum bæjarins, en listinn er þó ekki tæmandi. 


Klassískt jólahlaðborð á Múlabergi og fleira jólalegt 

Múlaberg verður með ýmislegt skemmtilegt í gangi fyrir jólin. Fyrst ber að nefna klassískt jólahlaðborð sem boðið verður upp á alla föstudaga og laugardaga frá og með 15. nóvember til 14. desember. Á borðinu eru forréttir, aðalréttir og eftirréttir. Meðal rétta eru t.d síld, risarækjur, grafinn lax, nautakjöt, hreindýrabollur, purusteik, hangikjöt og ris a la mande. Þá eru einnig réttir á borðinu sem henta þeim sem eru vegan. Hér má sjá matseðilinn.  Verðið er 15.990 kr. en börn 6-12 ára greiða 6.490 kr. Þá verður boðið upp á hádegisjólahlaðborð á Múlabergi fimmtudagana 6. og 15. desember en það kostar 6.490 kr. Þá má ekki gleyma hinu árlega fjölskyldujólahlaðborði með skemmtiatriðum fyrir börnin en það verður haldið þann 8. desember. Eins er hægt að kaupa jólasnittur sem er góður kostur fyrir þá sem vilja halda jólaboð heima eða á vinnustaðnum. 

Borðið svignar undan kræsingum á jólahlaðborði Múlabergs. Þessi mynd er tekin á jólahlaðborðinu í fyrra. Mynd: Múlaberg

5 rétta jólaseðill hjá Rub23

Rub23 verður með jólahlaðborð og ball í íþróttahöllinni síðar í nóvember en löngu er orðið uppselt á þann viðburð. Hinsvegar býður veitingastaðurinn einnig upp á fimm rétta jólamatseðil alla daga frá 20. nóvember til 21. desember. Matseðillinn samanstendur meðal annars af af reyktri lúðu, grillaðri nautalund og sushi. Verðið er 12.990 kr. eða 20.990 með sérvöldum vínum.

Jólahlaðborð með veislustjórn í Hofi

Mói Bistro í Hofi verður með jólahlaðborð eftirfarandi daga: 15.,16., 22. og 23. nóvember sem og dagana 6. og 7. desember. Veislustjórar eru þeir Vilhjálmur B Bragason og Rúnar Eff en þeir munu skemmta gestum með tónlist og söng. Á boðstólum verða forréttir á borð við grafna gæs, aðalréttir á borð við purusteik og kalkúnabringu, og eftirréttir á borð við piparkökuskyrtertu.

Vilhjálmur B. Bragason og Rúnar Eff sjá um veislustjórnina til skiptis á jólahlaðborði Móa bistro í Hofi. Myndir: Facebook

 

Jólabröns og jólahlaðborð á Aurora restaurant

Á Aurora restaurant  verður jólahlaðborð alla föstudaga og laugardaga frá 15. nóvember til 14. desember. Á hlaðborðinu er t.d. að finna grafna gæs, vegan graskerasúpu og dádýrakjöt. Verðið er 13.900 kr. og 6.900 kr. fyrir 5-12 ára. Þá býður Aurora restaurant einnig upp á jólabröns alla laugar- og sunnudaga á tímabilinu 16. nóvember til 22. desember, sem og mánudaginn 23. desember. Brönsinn er milli kl. 12 og 14 og kostar 7.900 kr. en 4.900 kr. fyrir börn 5-12 ára. Brönsinn er hlaðborð með heitum og köldum réttum sem og eftirréttum.

 Aurora restaurant verður bæði með jólabröns og jólahlaðborð í nóvember og desember. 

Jólabjór frá Borg og matur á LYST 

LYST býður upp á jólakvöld þann 15. nóvember með Borg Brugghúsi þar sem jólabjórarnir þeirra verða paraðir við rétti frá LYST. Fimm réttir og fimm bjórar fást þetta kvöld fyrir 10.500 krónur. 

Jólalegur fordrykkur á Rub23. Þar verður sérstakur jólamatseðill í boði á aðventunni. Mynd: K6veitingar


Fallegar skreytingar á veitingastaðnum Aurora á Berjaya hótelinu á horni Þórunnarstrætis og Þingvallastrætis. Jólahlaðborð Aurora byrjar þann 15. nóvember.