Ánægjan liggur í vöruhönnuninni
Ísgerðin í Kaupangi er akureyrskt fjölskyldufyrirtæki sem starfrækt hefur verið í 12 ár en síðan 2015 hafa Ásdís Elva Rögnvaldsdóttir og hennar fólk framleitt eigin ís. Akureyri.net ræddi við Ásdísi Elvu; fyrsti hluti viðtalsins birtist í dag, sá næsti á morgun og þriðji og síðasti hluti á sunnudaginn.
Umhverfisfræðimenntaða, mögulega ofvirka, gífurlega þrautseiga eða þrjóska ísgerðarkonan Ásdís Elva verður alltaf að hafa eitthvað fyrir stafni, segist ekki geta setið bara við að gera ekki neitt. Hún nýtur þess að prófa sig áfram í ísgerðinni, þróa vöruna og mætti orða það þannig að þessi ástríða og áhugi komi fram í afurðunum.
Ásdís Elva og maðurinn hennar, Sigurpáll Árni Aðalsteinsson, eru bæði frá Akureyri og þar búa fjölskyldur beggja. Þau áttu heima í Reykjavík, en fjölskyldan flutti norður 2010 og hún var komin af stað með eigin rekstur tæpu ári seinna. Um mitt ár 2011 stofnaði hún ásamt manninum sínum og mági ísbúðina Joger. Joger ísbúðin var á framhliðinni í Kaupangi og gekk þar í nokkur ár, en samhliða breytingum hjá Joger þróuðust málin þannig að hún fór að gera þetta á eigin forsendum.
Allur ís er gerður frá grunni; allar blöndur hrærðar í höndunum úr ferskri mjólk og rjóma ásamt bragðefnum úr ekta hráefni, segir Ásdís Elva.
Langaði að gera ísinn sjálf frá grunni
„Þá langaði mig til að fara að gera þetta sjálf af því að mig langaði að gera ferska vöru frá grunni með gæða bragðefnum. Ég var búin að kynna mér innihald í öðrum vörum á markaðnum og vildi vera með vöru sem hefði þá sérstöðu að vera úr fersku eðalhráefni. Ég vissi alveg að þetta væri hægt og við gætum vel gert þetta. Þá fór ég að prufa mig áfram. Ég komst í samband við aðila fyrir sunnan sem var að selja hráefni til ísgerðar, hafði samband við hann og hann kom mér af stað, seldi mér vörurnar og ég hef verið að þróa þessar uppskriftir alveg síðan þá. Í dag gerum við allan ís frá grunni hér á neðri hæðinni, handhrærum allar blöndur úr ferskri mjólk og rjóma ásamt bragðefnum úr ekta hráefni. Við beinlínis þurfum að sigta jarðarberjafræin úr bragðefninu þau eru það góð,“ segir Ásdís Elva.
Hún vinnur einfaldlega út frá grunnuppskrift sem hún fékk, uppskrift sem er ítölsk í grunninn, og prófar sig áfram út frá henni. Ef það kom dauður tími inn á milli setti hún bara eitthvað í vélarnar og fór að prófa sig áfram. „Svo fór ég á ísnámskeið mörgum árum seinna. Þá í raun og veru fínpússaði ég það sem ég hafði ekki náð að laga sjálf og vissi ekki hvernig ég átti að laga.“
Sendir ís út um allt land
Framleiðslan hefur fallið vel í kramið því nú sendir hún ísinn sinn í verslanir um allt land. Nýlega náðust svo samningar við Krónuna og Ásdís Elva því komin með framleiðsluna þar inn. „Það er ótrúlega stórt fyrir okkur,“ segir hún, en ísinn hennar er einnig hægt að fá í Hagkaupsverslunum, Nettó, Krambúðinni, Kjörbúðinni, Iceland-búðunum og svo framvegis.
Hún segir það heilmikið mál að framleiða ís og senda í verslanir um allt land. „Já, þetta er heilmikil vinna en þetta rúllar allt vel hjá okkur með góðu skipulagi og frábæru starfsfólki.”
Ánægjan liggur í hönnuninni
Ásdís Elva segir ástríðuna fyrir ísgerðinni eiginlega spretta af því að hún sé dálítill hönnuður í sér, hafi ánægju af því að hanna og búa eitthvað til. Hún hefur yndi af því að búa til allt ístengt og hefur til dæmis verið að gera stórar ístertur fyrir ýmis hátíðleg tækifæri. Hún hefur mikla ánægju af því að prufa sig áfram í skreytingum, en íserturnar seljast vel við ýmis tilefni hjá fólki.
„Allir viðburðir eins og fermingar, útskriftir, skírnir og jafnvel brúðkaup kalla á ístertur og stundum er ansi mikið að gera í framleiðslu á tertum,“ segir Ásdís Elva. Hún tengir ísgerðina þó meira við hönnuðinn og listamanninn í sér. Hún kveðst ekki hafa lært neitt í hönnun, en segir aðspurð að vissulega sé listfengi í ættinni. „Já það er listrænt fólk í ættinni, afi minn hannaði að stórum hluta Lystigarðinn og marga garða víða um Eyjafjörð og allt land en hans ástríða var garðyrkja,“ segir hún og vísar þar til Jóns afa síns, föður Rögnvaldar sem stússast með henni í kringum ísinn. „Svo er bara fullt af harðduglegu fólki í móðurættinni og margir í eigin rekstri þeim megin,“ bætir hún við.
Á MORGUN – Heimaframleiðsla í heimsfaraldri