Akureyri í samstarfi við Jelenia Góra
Hópur frá Akureyri heimsótti á dögunum pólsku borgina Jelenia Góra, en sveitarfélögin tvö eiga í tímabundnu samstarfi sem kostað er af uppbyggingarsjóði Evrópska efnahagssvæðisins (EES).
Markmiðið með samstarfinu er að deila þekkingu og reynslu á tilteknum sviðum, að því er segir á vef Akureyrarbæjar. „Samstarfið spannar nokkuð breitt svið en það nær yfir lýðræðislega þátttöku ungs fólks og samráð við það, umhverfisvænar almenningssamgöngur, stafræna þróun og nýtingu jarðvarma.“
Í hópnum sem fóru utan voru starfsmenn Akureyrarbæjar, m.a. Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, starfsmenn Norðurorku og tíu ungmenni á aldrinum 15-20 ára.
„Bæjarstjórinn fundaði með borgarstjóranum í Jelenia Góra, Jerzy Łużniak, fundað var með starfsfólki borgarinnar sem starfar á þeim sviðum sem samstarfið nær til og stofnanir og fyrirtæki sem því tengjast heimsóttar. Þá tók íslenski hópurinn þátt í setningu árlegrar ljósahátíðar sem kallast Movie Cities, ásamt fulltrúum frá mörgum vinabæjum Jelenia Góra. Ungmennahópurinn vann að ýmsum verkefnum með pólskum ungmennum á sama aldri sem heimsóttu Akureyri í júní á þessu ári.“
Meðal verkefna ungmennanna var gerð tónlistarmyndbands sem sjá má á vef Akureyrarbæjar og þar eru fleiri ljósmyndir úr ferðinni.
Nánar hér á vef Akureyrarbæjar.