Fara í efni
Mannlíf

Ævintýri Hinriks og Dimmu í Höllinni

Hinrik Svansson eigandi HS kerfa á Akureyri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þungarokkshljómsveitin Dimma heldur sannkallaða stórtónleika í Íþrótthöllinni á Akureyri á laugardagskvöldið og sólarhring áður eru tvennir tónleikar, annars vegar fyrir 8. til 10. bekk grunnskóla, hins vegar fyrir 18 ára og eldri, þar sem kunnir rapparar koma fram.

Hinrik Svansson, eigandi hljóðkerfa- og ljósaleigunnar HS kerfa, stendur í stórræðum við undirbúning tónleikanna sem eru hans hugarfóstur. Hann er ekki orðinn þrítugur en hefur þó verið í rúman áratug í bransanum sem hann datt óvart inn í, eins og hann orðar það. 

Erfitt að vera fyrstur

Ýmsir viðburðahaldarar hafa lýst áhuga á að koma með stór verkefni norður og setja upp í Höllinni, segir Hinrik. „Það er hins vegar eins og með svo margt annað að það er erfitt að vera fyrstur. Ég á allan búnaðinn, hef lengi þrýst á ýmsa að gera þetta með mér en ekki með neinum árangri. Þegar Dimma sýndi þessu áhuga ákvað ég að láta bara reyna á þetta sjálfur og ef það kemur ekki vel út borga ég brúsann,“ segir hann við Akureyri.net.

Dagskráin verður sem hér segir:

  • Föstudag 28. október – 8., 9. og 10. bekkur kl. 19.00 til 22.00 – Aron Can, Flóni, Jakob Möller og SviMA
  • Föstudag 28. október – 18 ára og eldri kl. 23.00 til 03.00 – Aron Can, Flóni, Gugusar, Arnar Leó, Jakob Möller, ISSI og SviMA
  • Laugardag 29. október – Dimma kl. 20.00 til 23.00

„Við byrjum á tónleikum fyrir 14 til 16 ára, krakka í 8., 9. og 10. bekk. Þetta er í fyrsta skipti sem eitthvað svona stórt er gert fyrir þennan hóp hér á Akureyri en mikið er gert af því fyrir sunnan,“ segir Hinrik.

Þungarokkssveitin Dimma verður á sviðinu í Íþróttahöllinni á laugardagskvöldið.

„Það heyrist stundum sagt að lítið sé í boði fyrir þennan aldurshóp á Akureyri. Ég tel ástæðuna þá að það er mjög erfitt að halda eitthvað svona fyrir hópinn því reglur í bænum eru erfiðar þegar kemur að því að sækja um leyfi og svo virðist mér líka að ákveðinn hópur vilji bara að ekkert sé gert. Ég fór af stað með þetta verkefni 2017 og hef rekist á marga veggi síðan, en það verður gaman að sjá þetta verða að veruleika á föstudaginn. Vonandi gengur vel svo hægt verði að gera þetta aftur.“

Tjalda öllu til

Þegar ákveðið var að slá til kom ekki annað til greina en að tjalda öllu til. „Sviðið er um 80 fermetrar, svipað og íbúðin mín!“ segir Hinrik og hlær. „Reyndar stærra en sumir skemmtistaðir í bænum.“

Hinrik bætir við: „Stundum líður manni eins og ég sé að synda á móti straumnum; að bæjarbúar séu ekki spenntir að fá að upplifa eitthvað nýtt, en þetta kemur allt í ljós um helgina. Það verður að minnsta kosti ekkert til sparað þegar kemur að búnaði. Fjöldi ljósa er talinn í hundruðum og þyngdin í tonnum. Þetta verður mikil upplifun fyrir alla sem koma.“

Nokkrir staðir á Akureyri bjóða upp á lifandi tónlist fyrir fullorðna. Hinrik nefnir Græna hattinn, R5, Götubarinn, Verkstæðið, LYST í Lystigarðinum. „Og svo er það auðvitað Hof, en leigan þar er reyndar svo há að menn þurfa helst að halda tvenna tónleika sama kvöld til að komast upp fyrir núllið.“ segir Hinrik.

„Þetta eru helstu staðir sem bjóða upp á lifandi tónlist og gera það mjög vel. Það er hins vegar tvennt ólíkt að fara tónleika á R5 í samanburði við Laugardalshöllina. Íþróttahöllin okkar hér á Akureyri er mjög svipuð á stærð og Laugardalshöllin og því sé ég ekki af hverju við getum ekki reynt að halda tónleika hér líka þó það sé ekki oft á ári.“

Tæpur áratugur er síðan Dimma varð fyrsta þungarokksveitin til að halda eigin tónleika í Hörpu. Lék þá fyrir fullu húsi í Norðurljósasalnum og fyrir ári endurtók hljómsveitin leikinn nema hvað þá tróð hún upp í Eldborg, stærsta sal hússins; lék þar á tvennum uppseldum tónleikum. Hljómsveitina hefur lengi langað að halda stórtónleika á Akureyri, ámóta þeim í Hörpu, og nú verður loks af því.

Spennandi verður að sjá hvernig til tekst því Hinrik telur að gangi vel verði án efa margir tilbúnir að fylgja í kjölfarið og setja upp stóra tónleika á Akureyri.

Hinrik hóf undirbúning um síðustu helgi. Þá var hann kominn með mikið „dót“ í Höllina en von var á miklu til viðbótar!