Fara í efni
Mannlíf

Aðalsteinn Öfgar og Stefán Þór láta vaða

Stefán Þór Sæmundsson hefur oft skrifað pistla og greinar sem birst hafa á Akureyri.net og nú ætlar hann að spýta í lófana. Í dag hefst pistlaröð hans þar sem vöngum er velt um eitt og annað í samfélaginu.

Stefán Þór var blaðamaður á Degi, norðlenska dagblaðinu sáluga í átta ár, blaðamaður og íþróttafréttamaður á Mogganum í 12 ár og hefur þýtt og samið yfir 70 bækur og komið að alls kyns blöðum og bæklingum. Þá hefur hann kennt íslensku og fleira í Menntaskólanum á Akureyri í 30 ár og m.a. unnið talsvert mikið í byggingavinnu, við vegagerð, ræstingar og á trésmíðaverkstæði þannig að starfsævin er orðin býsna löng og reynslan eftir því. Þegar hann var blaðamaður á Degi skrifaði hann fjölmarga pistla svona aukreitis, bæði undir eigin nafni og dulnefnunum Hallfreður Örgumleiðason og Anna Ýr. Segja má að spjall hans við Aðalstein Öfgar í næstu pistlum sé undir áhrifum af þeirri reynslu.

Í fyrsta pistlinum af nokkrum í þessari röð ræðir Stefán Þór um öll þessi nýju störf sem felast í því að vera milliliður, tengiliður eða einhvers konar kostað haldreipi milli neytenda og seljenda – og þá gjarnan í gegnum app. „Meginstefið er sjálfvirkni og sá sem gerir út á þessa þjónustu á ekki að þurfa að hafa mikið fyrir henni og getur því hangið í símanum og á samfélagsmiðlum liðlangan daginn á þokkalegum launum. Þetta eru hin nýju störf sem áhrifavaldar, fyrirlesarar og fræðimenn hafa verið að blása út; eitthvað sem ekki er endilega hægt að mennta sig til eða sjá fyrir, eitthvað alveg nýtt og óvænt,“ segir Stefán.

Stefán Þór og téður Aðalsteinn Öfgar ræða þessi mál og þar sem sá fyrrnefndi er opinber starfsmaður og má ekki tjá mjög sterkar eða öfgakenndar skoðanir þá er sá síðarnefndi afskaplega gagnlegur til slíks brúks, ef á þarf að halda. „Ef lesendur súpa hveljur og heimta afhausun, brennimerkingu eða gapastokk má auðveldlega benda á Aðalstein Öfgar í þeim tilfellum,“ sagði Stefán í spjalli við blaðamann, sposkur á svip.