Fara í efni
Íþróttir

Tvöfaldur meistari: „Ólýsanleg tilfinning“

Hafdís Sigurðardóttir í keppninni á laugardaginn. Ljósmynd: Ármann Hinrik

Hafdís Sigurðardóttir sem varð Íslandsmeistari í götuhjólreiðum á laugardaginn og í tímatöku tveimur dögum áður, segir það ólýsanlega tilfinningu að vera besta hjólreiðakona landsins. „Ég stefndi að þessum titli á síðasta ári en tapaði með nokkrum sekúndubrotum á endasprettinum“, sagði hún við Akureyri.net eftir að seinni Íslandsmeistaratitillinn var í höfn. Ágústa Edda Björnsdóttir varð í öðru sæti og Silja Rúnarsdóttir í þriðja sæti.

Náði að slíta sig frá

Íslandsmeistarakeppnin í götuhjólreiðum fór fram við Mývatn, og í nágrenni þess, í vindi og kulda. Hafdís segir að sér hefði þó ekki verið kalt því hún hafi verið þokkalega vel búin og vön keppnisálagi sem þessu. Hún kom í mark 4 mínútum og 36 sekúndum á undan næsta keppanda og útskýrir atburðarásina:

„Hópurinn fer af stað og vegalengdin er 99 km“, segir hún og bætir við: „Við byrjuðum við Mývatn og hjóluðum þaðan í mót- og hliðarvindi um 60 km, tókum þá beygju hjá Laxárvirkjun þar sem var ágætis brekka og þá náði ég að slíta mig frá Silju og Ágústu. Eftir brekkuna eru rúmlega 30 km eftir, þar var tekin vinstri beygja inn á Kísilveginn og þar vorum við að mestu í meðvindi alla leið í mark. Ég náði að halda góðu tempói síðustu 30 kílómetrana.“

Mikil keppnismanneskja

Hafdís hefur stundað íþróttir frá barnsaldri og er mikil keppnismanneskja. Hún byrjaði að æfa sund sem barn og æfði fram á unglingsár. Sundið er því hennar bakgrunnur. Þar við bættust hinar ýmsu greinar s.s. hlaup, líkamsrækt og þríþraut. Hún hefur alltaf mætt í einhverjar keppnir; líka meðan hún var í fæðingarorlofi.

Hafdís byrjaði að æfa götuhjólreiðar með þjálfara haustið 2019 en hafði áður eingöngu hjólað og keppt sér til skemmtunar. Hún keypti sitt fyrsta götuhjól þegar hún keppti í þríþraut árið 2013 og svo þróaðist þetta áfram. Um það segir Hafdís: „Síðan eignaðist ég börnin og byrjaði svo aftur. Svo kynntist ég fólki hér sem var líka að hjóla. Smátt og smátt fórum við að hjóla meira og svo fórum við vinkonurnar að taka þátt í keppnum á vegum Hjólreiðasambandsins.“ Þjálfari Hafdísar er Ingvar Ómarsson.

Gríðarlega tímafrek íþrótt

Hafdís hjólar að jafnaði 12-16 tíma á viku fyrir utan aðra hreyfingu. Um 95% af þjálfuninni fer fram heima á trainer ; græju sem hjólið er fest á þannig að hún hjólar en er þó kyrr á sama stað! Á veturna æfir hún líka lyftingar, liðleika og fleira. „Svo er ég að taka stórar vikur inn á milli t.d. um jólin 20-30 tíma á viku.“ Hún fer líka erlendis að þjálfa og tekur þá sama tímafjölda þar á viku. „Þetta er íþrótt sem krefst alveg gríðarlega mikils tíma“, segir Hafdís.

Mörg járn í eldinum

Íslandsmeistarinn í götuhjólreiðum er með Bs-gráðu í íþróttafræði, diplómu í lýðheilsuvísindum og mastersgráðu í uppeldis- og menntunarfræðum. Hún vann sem kennari en hætti því til að geta þjálfað meira og stjórnað tíma sínum betur. Hafdís starfar nú sem stöðvarstjóri á Líkamsræktarstöðinni Bjargi þar sem það starf býður upp á meiri sveigjanleika en kennslan. Auk þessa vinnur Hafdís við að þjálfa hjólreiðar og heldur sundnámskeið fyrir börn. Um það segir hún: „Þetta væri ekki hægt nema hafa sterka bakhjarla og ég fæ 100% stuðning frá fjölskyldunni.“ Í fyrrasumar lenti Hafdís í hjólreiðaslysi en hefur náð ótrúlega góðum bata. Hún hefur þurft að vera í sjúkraþjálfun síðan, og hún tekur líka mikinn tíma; en með þeim sveigjanleika sem hún hefur í starfi sínu á Bjargi þá gengur þetta upp ásamt öllum öðrum verkefnum sem hún þarf að sinna.

En hvernig tilfinning er það að vera besta hjólreiðakona landsins?

„Þetta er ólýsanleg tilfinning“, svarar Hafdís. „ Ég stefndi að þessum titli á síðasta ári en tapaði með nokkrum sekúndubrotum á endasprettinum. Hún bætir við: „Ótrúlega ljúft líka að deila pallinum með Silju Rúnarsdóttur sem er æfingafélagi minn og við höfum sama þjálfara. Við erum svolítið teymi í þessu og það er alvega ómetanlegt að hafa svona stuðning í þessari íþrótt“, segir Hafdís að lokum.

Hafdís Íslandsmeistari í tímatöku

Hafdís tvöfaldur Íslandsmeistari

Þrjár efstu á Íslandsmótinu í götuhjólreiðum, frá vinstri: Ágústa Edda Björnsdóttir, Hafdís Sigurðardóttir og Silja Rúnarsdóttir. Ljósmynd: Ármann Hinrik.