„Treysti því að þær klári þetta með stæl“
Arna Sif Ásgrímsdóttir og samherjar hennar í Glasgow City sigruðu Rangers 2:0 í toppslag skosku úrvalsdeildarinnar í fótbolta í gær. Þetta var síðasti leikur Örnu með liðinu og hún skilur við það í góðri stöðu; Glasgow City hefur sex stiga forskot á Rangers.
„Þetta var hörkuleikur og mikið undir fyrir bæði lið. Við komum mjög vel undirbúnar í leikinn; vorum búnar að liggja vel yfir Rangers og náðum að loka á þeirra styrkleika. Okkur tókst að nýta okkar tækifæri og þetta var sanngjarn sigur að mínu mati,“ sagði Arna Sif við Akureyri.net.
Tveimur umferðum er lokið af þremur í Skotlandi; öll liðin mætast sem sagt þrisvar. Glasgow City og Rangers hafa nokkra yfirburði þannig að samherjar Örnu eru lang sigurstranglegastir því önnur lið hafa ekki verið mikil fyrirstaða.
„Nú er ein umferð eftir og þetta algjörlega í okkar höndum. Eins spennt og ég er að koma heim í Þór/KA er hrikalega erfitt að fara á þessum tímapunkti. En ég treysti því að þær klári þetta með stæl og sendi mér verðlaunapeninginn minn í pósti!“ sagði Arna Sif, sem var lánuð til skoska liðsins í janúar og fram á vor. Hún kemur til landsins á morgun, fer í nokkurra daga sóttkví og missir því af fyrsta heimaleik Þórs/KA, gegn Selfossi annað kvöld, og leiknum gegn Breiðabliki í Kópavogi á laugardaginn. Fyrsti leikur Örnu Sifjar með Þór/KA í sumar verður í 4. umferð, þegar Stjarnan kemur í heimsókn 19. maí.