Þór/KA upp í 4. sæti eftir sigur á FH
Þór/KA sigraði FH 1:0 í Hafnarfirði í kvöld í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Það var Karen María Sigurgeirsdóttir sem gerði eina markið snemma í seinni hálfleik með glæsilegu skoti og liðin hafa þar með sætaskipti í deildinni. Þór/KA er komið í 4. sæti með 22 stig en FH er áfram með 21 og fer niður í fimmta sæti.
Þetta er aðeins annar tapleikur nýliða FH á heimavelli í sumar. Liðið, sem hefur komið skemmtilega á óvart, hafði fyrir kvöldið unnið fjóra heimaleiki, gert eitt jafntefli - gegn Breiðabliki - og aðeins tapað fyrir Val.
Sigur Þórs/KA í Hafnarfirði var mikilvægur og ánægjulegur og það eru líka mikil gleðitíðindi að Sandra María Jessen, fyrirliði Þórs/KA, sneri aftur í kvöld. Sandra, sem handleggsbrotnaði í leik gegn Tindastóli á VÍS-vellinum (Þórsvellinum) 21. júní, var í leikmannahópnum gegn Þrótti í Reykjavík á laugardaginn en kom ekki inná, en var hins vegar í byrjunarliðinu í kvöld og lék allan tímann.
Leikurinn var að mestu í jafnvægi í fyrri hálfleik, Melissa Lowder þurfti einu sinni að verja mjög vel í marki Þórs/KA og hinum megin varði Aldís Guðlaugsdóttir markvörður FH frábært skot Margrétar Árnadóttur snilldarvel. Skömmu síðar átti Sandra María hörkuskot en boltinn small í þverslá FH-marksins.
Karen María gerði svo út um leikinn á 58. mínútu. Hún fékk tíma til að athafna sig í teignum eftir klaufagang í vörn FH og þrumaði boltanum í netið.
Eftir að hafa lent undir reyndu heimamenn hvað þeir gátu til að jafna en ógnuðu aðeins einu sinni verulega; Erla Sól Vigfúsdóttir átti fast skot úr teignum en Melissa varði mjög vel.
Eftir kvöldið er Valur í efsta sæti með 29 stig, Breiðablik 27 og Þróttur 24. Liðin hafa öll lokið 13 leikjum en Þór/KA kemur næst, sem fyrr segir, með 22 stig eftir 14 leiki.
Næsti leikur Þórs/KA er á útivelli gegn Breiðabliki næsta mánudag, á frídegi verslunarmanna, og síðan koma Valsarar norður þriðjudaginn 15. ágúst.
Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.