Þór tapaði fyrir Fram í bragðdaufum leik
Þórsarar urðu að játa sig sigraða, 22:19, fyrir Fram á Íslandsmótinu í handbolta í kvöld í Íþróttahöllinni á Akureyri. Þeir eru því enn með aðeins tvö stig.
Fyrri hálfleikurinn var jafn en Þórsarar höfðu eins marks forskot í hálfleik, 10:9. Sóknarleikur liðanna var ekki upp á marga fiska, eins og tölurnar gefa til kynna, en varnarleikurinn var á hinn bóginn býsna góður lengst af.
Þórsarar komust tveimur mörkum yfir snemma í seinni hálfleik, 11:9, en eftir tíu mínútur voru Framarar komnir með forystu, 14:13, og eftir það komust heimamenn ekki yfir aftur.
„Sóknarleikurinn var á pari miðað við leikmennina okkar sem við erum að koma inn í þetta vegna meiðsla meðal annars. Mér fannst þetta vera á pari fyrstu 45 mínúturnar. Svo dalaði þetta hjá okkur. Það eru sumir leikmenn búnir að ná tveimur æfingum með okkur. Hinir eiga svo sem alveg að vita hvað við erum að gera en að vera kominn allt í einu í framvarðarsveitina í sókninni. Það er nýtt. Tvítugir strákar, það tekur þá smá tíma að skólast inn í þetta. Við þurfum bara að byggja áfram á okkar gildum og reyna að blása aðeins í seglin,“ sagði Þorvaldur Sigurðsson, annar þjálfara Þórsliðsins, í viðtali við mbl.is eftir leikinn.
Mörk Þórs í kvöld: Ihor Kopyshynskyi 5/3, Arnór Þorri Þorsteinsson 4, Þórður Tandri Ágústsson 3, Garðar Már Jónsson 3, Sigurður Kristófer Skjaldarson 2 og Aron Hólm Kristjánsson 2.
Jovan Kukobat varði 10 skot, þar af 2 víti.