Sparisjóðurinn semur við kvennalið Þórs/KA
Sparisjóður Höfðhverfinga hefur gert samning um samstarf við kvennalið Þórs/KA í knattspyrnu. „Sparisjóðurinn leggur áherslu á að styrkja verkefni á sviði íþrótta- og tómstundamála í nærumhverfi sínu en hlutverk Sparisjóðsins er að standa vörð um hagsmuni landsmanna, styrkja innviði samfélagsins og styðja við félags- og atvinnulíf í heimabyggð,“ segir í tilkynningu.
„Við fögnum samstarfi við Sparisjóðinn sem felur í sér mikilvægan stuðning við metnaðarfullt uppbyggingarstarf félagsins. Það eru spennandi tímar framundan þar sem mikið af ungum og efnilegum stúlkum eru að fá að njóta sín,“ er haft eftir Guðrúnu Unu Jónsdóttur ritara stjórnar Þórs/KA. „Samstarf við kvennalið Þórs/KA er í takt við samfélagslega ábyrgð Sparisjóðsins þar sem við styðjum við íþrótta- og félagsstarf í nærumhverfi okkar. Við hlökkum til samstarfsins,“ segir Jón Ingvi Árnason sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Höfðhverfinga.