Fara í efni
Íþróttir

Skrípamark kom Blikum á bragðið í öruggum sigri

Lara Ivanusa, leikmaður Þórs/KA, og Agla María Albertsdóttir í kröppum dansi í gær. Myndir: Þórir Tryggvason

Þór/KA tapaði 3:0 í gær fyrir Breiðabliki í Bestu deild kvenna í knattspyrnu á Þórsvellinum (VÍS-vellinum). Leikurinn var ekki mikið fyrir augað enda aðstæður ekki eins og best verður á kosið; kalt hafði verið í veðri í nokkra daga og mikið snjóað og völlurinn því ekki upp á sitt besta.

Fyrir leikinn var Þór/KA aðeins þremur stigum á eftir Breiðabliki en nú munar sex stigum á liðunum. Þór/KA er með 15 stig; tapaði fyrir Val í fyrstu umferðinni en vann síðan fimm leiki í röð þar til kom að viðureigninni í gær. Blikarnir hafa unnið alla sjö leikina og eru með 21 stig, Valsmenn hafa unnið sex og tapað einum – fyrir Breiðabliki – og eru í öðru sæti með 18.

Blikarnir byrjuðu af miklum krafti í gær en heimamenn komust fljótlega inn í leikinn. Skrautlegt mark Blika eftir rúman hálftíma var eins og blaut tuska í andlit stelpnanna í Þór/KA því leikurinn hafði verið í jafnvægi langa hríð.

Hulda Björg Hannesdóttir skallar að marki Breiðabliks í gær.

Agla María Albertsdóttir gerði fyrsta markið á 35. mín. Hún sendi fyrir markið utan af vinstri kanti en boltinn hafnaði óvart í markinu; sveif yfir Shelby Money markvörð og í fjærhornið. Hræðilega svekkjandi að fá þannig mark á sig.

Snemma í seinni hálfleikn skoraði Vig­dís Lilja Kristjáns­dótt­ir annað mark Blika af stuttu færi og þá átti Money markvörður aftur að gera mun betur.

Það var svo á lokasekúndunum að Andrea Rut Bjarnadóttir gerði þriðja mark toppliðsins og innsigaði þar með sanngjarnan sigur.

  • Þetta var fyrsti heimaleikur Þórs/KA á lifandi grasi í sumar. Hinir fóru fram inni í Boganum
  • Fimm breytingar voru á byrjunarliði Þórs/KA frá síðasta leik í deildinni.
  • Bríet Jóhannsdóttir og Emelía Ósk Krüger, sem eru fæddar 2006 og fagna því 18 ára afmæli á þessu ár, voru báðar í byrjunarliði Þórs/KA í fyrsta skipti í deildarleik. Þær stóðu sig með mikilli prýði.
  • Kar­en María Sigurgeirsdóttir veikt­ist illa á föstudag og fór í botn­langa­upp­skurð.
  • Ísfold Marý Sigtryggsdóttir er meidd á fæti og verður lengi frá.
  • Fjórir leikmenn útskrifast sem stúdentar frá MA 17. júní og eru í útskriftarferð í Portúgal; Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir, Una Móeiður Hlynsdóttir, Iðunn Rán Gunnarsdóttir og Steingerður Snorradóttir.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna

Bríet Jóhannsdóttir, til vinstri, og Emelía Ósk Krüger, sem eru fæddar 2006 og fagna því 18 ára afmæli á þessu ár, voru báðar í byrjunarliði Þórs/KA í fyrsta skipti í deildarleik í gær.