Fara í efni
Íþróttir

Sektarsjóður Þórs/KA rennur til Seyðfirðinga

Leikmenn Þórs/KA fagna marki síðastliðið sumar. Arna Sif Ásgrímsdóttir, fyrirliði, fremst til hægri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Leikmenn knattspyrnuliðs Þórs/KA hafa ákveðið að láta sektarsjóð sinn frá síðasta sumri renna til Seyðfirðinga.

Stúlkurnar segjast vanari því að leita styrkja og stuðnings hjá öðrum en að veita slíkt sjálfar. „Við höfum átt mikilli gæfu að fagna hvað varðar öflugt stuðningsfólk og fyrirtæki sem styðja við starfið og styrkja okkur. En nú er komið að okkur! Við viljum leggja okkar af mörkum til að hjálpa Seyðfirðingum eftir náttúruhamfarirnar sem þar hafa dunið yfir og sér ekki fyrir endann á,“ segir á Facebook síðu liðsins. „Við höfum því gefið sektarsjóðinn okkar frá árinu 2020 í sjóð til stuðnings Seyðfirðingum. Við skorum á önnur knattspyrnulið kvenna og karla að styðja Seyðfirðinga,“ segir stúlkurnar.

Arna Sif Ásgrímsdóttir, fyrirliði Þórs/KA, segir sjóðinn venjulega hafa verið notaðan í lokahóf eða eitthvað slíkt fyrir leikmenn. „Þar sem það verður ekkert lokahóf og við sáum ekki fram á að geta notað sjóðinn í neitt á næstunni fyrir okkur sjálfar ræddum við um að gefa hann í eitthvert gott málefni. Þegar þessar hörmungar áttu sér stað á Seyðisfirði kom upp sú hugmynd að styrkja Seyðfirðinga og það voru allar sammála því að þetta væri góð hugmynd,“ sagði Arna Sif við Akureyri.net.