Óvissuferð til Alberts boðin upp á herrakvöldi
Algengt er að haldin séu uppboð á fótboltatreyjum, listaverkum og þess háttar varningi á herra- og kvennakvöldum íþróttafélaga og annarra félagasamtaka. Þórsarar halda árlegt herrakvöld sitt um næstu helgi og þá fer fram óvenjulegt uppboð; boðið verður upp ferðalag! Að vissu leyti er það óvissuferð, á knattspyrnuleik í einhverju útlandi!
Ferðin sem um ræðir verður farin til þess að fylgjast með knattspyrnukappanum Albert Guðmundssyni í leik. Faðir hans, Guðmundur Benediktsson – Gummi Ben – er grjótharður Þórsari eins og margir vita og verður með í för.
Innifalið er flug, hótel, miðar á fínasta stað á vellinum og síðan verður farið út að borða með þeim feðgum, Albert og Gumma.
Óvissan er fólgin í því að ekki er vitað með félagi Albert leikur næsta vetur. Hann er nú á mála hjá Genoa og hefur farið á kostum í ítölsku deildarkeppninni, svo mjög að nýkrýndir Ítalíumeistarar Inter Milan og stórveldið Juventus hafa bæði sýnt honum mikinn áhuga. Albert hefur einnig verið orðaður við Tottenham og fleiri lið á Englandi. Talið er næsta víst að Albert rói á önnur mið í sumar og spennandi verður að sjá hvaða félag klófestir leikmanninn.