„Langar að halda áfram að skrifa söguna“
KA leikur til úrslita í bikarkeppni Knattspyrnusambandsins, Mjólkurbikarkeppninni, gegn Víkingi á laugardaginn. Flautað verður til leiks á Laugardalsvelli klukkan 16.00.
„Þetta leggst rosalega vel í okkur. Við erum ótrúlega spenntir og okkur langar að halda áfram að skrifa söguna,“ sagði Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA, í samtali við mbl.is á blaðamannafundi sem KSÍ hélt í Laugardalnum í dag vegna leiksins.
„Við höfum aldrei unnið bikarinn og viljum koma hérna og taka hann eftir að hafa upplifað ýmislegt í sumar. Evrópukeppnin var náttúrlega ótrúlega skemmtilegt ævintýri þar sem við gátum glatt mörg KA-hjörtu og við ætlum að reyna að gera það aftur á laugardaginn,“ sagði Hallgrímur ennfremur.
Þetta er fjórða tilraun KA-manna til að hreppa bikarinn en hingað til hafa þeir orðið að gera sér silfurverðlaun að góðu.
KA-maðurinn Sveinn Margeir Hauksson og Pablo Punyed, einn besti leikmaður Víkings í leik á Greifavelli KA. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Ef spár ganga eftir mun veðrið sannarlega ekki leika við KA-menn og Víkinga á Laugardalsvellinum því gert er ráð fyrir roki og úrhellisrigningu, en engan bilbug er að finna á þjálfaranum þrátt fyrir það. „Þetta verður gríðarlega skemmtilegur leikur í, að mér heyrðist, smá vind og rigningu en við erum bara klárir,“ sagði Hallgrímur í dag.
„Víkingar eru mjög sterkir. Við verðum að eiga góðan leik, það er alveg klárt. Ég tel að það hafi hjálpað okkur rosalega mikið að hafa spilað marga stóra leiki í sumar, þar sem er mikið undir, og til dæmis spilað á Laugardalsvelli. Að við séum ekki að koma í fyrsta skiptið hérna,“ sagði þjálfarinn.
Viðtal fótbolta.net við Hallgrím Jónasson þjálfara KA
Viðtal RÚV við Hallgrím Jónasson