Fara í efni
Íþróttir

KA/Þór tapaði aftur fyrir HK í deildinni

Ida Hoberg var markahæst í liði KA/Þórs gegn HK á laugardaginn. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA/Þór tapaði 25:24 fyrir HK í Olís deild kvenna í handbolta, efstu deild Íslandsmótsins, í Kópavogi á laugardaginn. Þetta var aðeins annar sigur HK í deildinni í vetur - hinn var gegn KA/Þór á Akureyri.

Stelpurnar okkar í KA/Þór höfðu þriggja marka forystu í hálfleik, 14:11. Fyrsta mark liðsins í seinni hálfleik kom ekki fyrr en eftir 10 mín. voru liðnar og um miðjan hálfleikinn náði HK forystunni. 

KA/Þór var án landsliðskvennanna Rutar Jónsdóttur og Unnar Ómarsdóttur. Unnur er ólétt eins og Akureyri.net greindi frá í síðustu viku og Rut var veik. KA/Þór hefur 12 stig að loknum 18 leikjum og er í 5. sætinu, en Haukar hafa einnig 12 stig og á einn leik til góða. Sex efstu liðin fara í úrslitakeppnina.

Mörk KA/Þórs: Ida Hoberg 7, Kristín A. Jóhannsdóttir 4, Lydía Gunnþórsdóttir 4, Hildur Lilja Jónsdóttir 4, Natahlia Soares 3, Anna Mary Jónsdóttir 1, Anna Þyrí Halldórsdóttir 1.

Varin skot: Matea Lonac 11 (35,5%).

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.