Fara í efni
Íþróttir

KA með eitt stig heim úr í Árbænum

Ásgeir Sigurgeirsson fyrirliði KA gerði mark liðsins í Árbænum í dag. Mynd: Skapti Hallgrímsson

KA-menn hafa verið á mikilli siglingu undanfarið en náðu sér ekki nægilega vel á strik í dag þegar þeir heimsóttu botnlið Fylkis í Bestu deildinni. Leiknum lauk með 1:1 jafntefli og KA missti þar með af tveimur afar dýrmætum stigum í baráttunni um að enda í efri hluta deildarinnar áður en hann verður skipt í tvennt. Fjórar umferðir eru eftir þangað til.

Fylkismenn byrjuðu betur og hefðu með örlítilli heppni átt að skora að minnsta kosti eitt mark á fyrstu 20 mínútunum. KA-menn hresstust þegar leið á hálfleikinn og ógnuðu marki heimamanna nokkrum sinnum en tókst ekki að skora.

KA-strákarnir komu betur stemmdir til seinni hálfleiksins og fyrirliðinn, Ásgeir Sigurgeirsson, sem kom inn í byrjunarliðið á ný þar sem Viðar Örn Kjartansson er meiddur, braut ísinn á 60. mínútu. Hrannar Björn Steingrímsson átti glæsilega sendingu fyrir markið og Ásgeir skallaði boltann í netið.

KA náði hins vegar ekki að halda forystunni lengi. Þegar tæpar voru eftir jafnaði Emil Ásmundsson, einnig með skalla.

Úrslitin eru KA-mönnum að sjálfsögðu vonbrigði en það verður að segjast eins og er að úrslitin voru sanngjörn og Fylkismenn reyndar nær sigri ef eitthvað var.

Mikil spenna

Fjórar umferðir eru eftir áður en deildinni verður skipt i tvennt. Sex efstu liðin halda áfram keppni um Íslandsmeistaratitilinn, sex þau neðri mætast einnig innbyrðis í einfaldri fimm leikja umferð og tvö neðstu falla.

Ljóst er að baráttan um sæti í efri hlutanum verður gríðarlega hörð. Eins og staðan er núna er KA einkum í baráttu við Fram, ÍA og Stjörnuna.

  • KA er í áttunda sæti með 23 stig að loknum 18 leikjum
  • Stjarnan er í sjöunda sæti, einnig með 23 stig en 18. leikur liðsins er í kvöld gegn Breiðabliki.
  • ÍA er í sjötta sæti með 25 stig og á einn leik til góða á KA, fær Fram í heimsókn á morgun.

Þannig vill til að þrír af fjórum leikjum sem KA á eftir eru gegn liði í þessari baráttu, þannig að spennan verður mikil. KA á þessa leiki eftir áður en deildinni verður skipt í tvennt:

  • KA - Stjarnan
  • Fram - KA
  • KA - Breiðablik
  • ÍA - KA

Leikskýrslan

Staðan í deildinni