Fara í efni
Íþróttir

KA Íslandsmeistarar og unnu fjórfalt

Íslandsbikarinn á loft! Ljósmynd: Þórir Tryggva

KA-konur tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn í blaki með sigri í oddahrinu í oddaleik í úrslitarimmunni gegn Aftureldingu. Afturelding vann fyrstu hrinuna, KA vann næstu tvær, en Afturelding jafnaði í 2-2. Æsispennandi oddahrinu lauk síðan með sigri KA, 15-12. 

KA - Afturelding 3-2 (17-2525-2125-17 20-25 15-12)

Fyrsta hrinan var jöfn framan af, en gestirnir náðu frumkvæðinu um hana miðja. KA jafnaði aftur, en Afturelding jók smátt og smátt forskotið eftir því sem leið á hrinuna og vann hana að lokum með átta stigum, 25-17.

Afturelding byrjaði aðra hrinuna betur, skoruðu fimm fyrstu stigin, en KA jafnaði síðan í 6-6 og komast yfir. Stemningin í húsinu magnaðist og KA-konur nýttu stuðninginn, náðu yfirhöndinni og unnu aðra lotuna að lokum 25-21.

Um 20-30 stuðningsmenn fylgdu Mosfellingum norður, en nánast allan leikinn voru þeir yfirgnæfðir af háværum heimamönnum, með trommur og hvatningarhróp að vopni. Stuðningurinn virtist skila sér vel til KA-kvenna, að minnsta kosti þegar á leið, eftir smá hikst í fyrstu lotu og byrjun annarrar.

KA hafði síðan nokkra yfirburði í þriðju hrinunni, náði fljótlega góðu forskoti og hélt því út hrinuna, lokatölur 25-17.

Fjórða hrinan var mun jafnari en fyrstu þrjár. Gestirnir náðu smá forystu um hana miðja, en héldu henni ekki lengi. Jafnt var á öllum tölum frá 14-14 upp í 20-20, en gestirnir skoruðu þá þrjú stig í röð. KA tók leikhlé, en gestirnir skoruðu næstu tvö stig og unnu hrinuna 25-20.

Jafnt var á öllum tölum í oddahrinunni upp í 5-5, en þá náði Afturelding forystunni, ekki þó lengi því aftur var jafnt 9-9. Eftir æsispennandi lokakafla tókst KA-konum að kreista fram sigurinn, 15-12, og tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn.

Sá misskilningur kom fram í frétt okkar hér í dag að KA gæti unnið þrefalt með því að vinna þessa viðureign í kvöld og tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn. Réttara væri að segja fjórfalt, ef meistarakeppni BLÍ er talin með, því KA vann þá viðureign í haust. KA-konur eru því meistarar meistaranna, bikarmeistarar, deildarmeistarar og Íslandsmeistarar - og það annað árið í röð!

Til hamingju, KA!

Íslandsmeistarar í blaki kvenna 2023: KA! Ljósmynd: Þórir Tryggva.


Sigurinn í höfn! Sumar trúa þessu varla. Mynd: HarIngo


Stemningin í KA-heimilinu var frábær í kvöld og heimakonur vel studdar, þó ekki væri troðfullt. Hér þakka þær sínu fólki stuðninginn. Mynd: HarIngo