Fara í efni
Íþróttir

KA hafði Stjörnuna undir í spennutrylli

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands og bróðir Patreks, þjálfara Stjörnunnar, fylgist með KA-mönnum kyrja sigursönginn að leikslokum! Guðni stendur á milli Ingvars Más Gíslasonar, formanns KA, og eiginkonu hans, Hildu Jönu Gísladóttur. Fyrir framan þau eru foreldrar KA-mannsins Dags Gautasonar sem leikur með Stjörnunni, Gauti Einarsson og Hafdís Bjarnadóttir. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

KA hafði betur í miklum  spennuleik gegn Stjörnunni í Olís deild Íslandsmótsins í handbolta, 25:24, í KA-heimilinu undir kvöld. Staðan í hálfleik var 15:13 fyrir KA.

Óðinn Þór Ríkharðsson gulltryggði sigur KA þegar hann gerði 25. markið 10 sekúndum fyrir leikslok og engu máli skipti þótt Dagur Gautason gerði síðasta mark leiksins fyrir Stjörnuna í þann mund er leiktímanum lauk.

Óðinn Þór var markahæstur í liði KA með 8 mörk (3 víti) og Patrekur Stefánsson gerði 6. Í liði Stjörnunnar voru Akureyringar atkvæðamestir; KA-maðurinn Dagur Gautason og Þórsarinn Hafþór Vignisson gerðu 8 mörk hvor.

KA er nú komið með 14 stig og fer upp í sjöunda sæti deildarinnar. Stjarnan er áfram í fimmta sæti með 18 stig. Liðin mætast aftur strax á miðvikudaginn í Garðabæ, í bikarkeppni HSÍ.

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson heiðraði leikmenn og áhorfendur með nærveru sinni. Hann kom til Akureyrar í gær, sinnti ýmsum erindum og gat ekki sleppt því tækifæri að fylgjast með sínum mönnum í Stjörnunni, þar sem Patrekur bróðir hans er við stjórnvölinn, áður en forsetabíllinn lagði í hann suður á bóginn á ný. 

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.

Óðinn Þór Ríkharðsson gerði síðasta mark KA í leiknum og fagnaði að vonum innilega. Hann var markahæstur KA-manna í leiknum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.