Jóna Margrét til liðs við Cartagena á Spáni
Jóna Margrét Arnarsdóttir, landsliðskona í blaki úr KA, skrifaði í dag undir samning við spænska liðið FC Cartagena. Jóna, sem er aðeins 19 ára gömul, var einn máttarstólpa í liði KA sem vann til allra titla sem í boði voru hérlendis í vetur; varð Íslands-, bikar- og deildarmeistari auk þess að vera meistari meistaranna. Greint er frá þessu á heimasíðu KA í kvöld.
„Jóna sem er uppalin í KA hefur æft með meistaraflokk frá árinu 2016, þá aðeins 12 ára gömul, var kjörin íþróttakona KA fyrir árið 2022 og var í lok núverandi tímabils kjörin besti leikmaður liðsins. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Jóna blómstrað í uppspilarastöðunni hjá KA liðinu undanfarin ár og orðin fastamaður í A-landsliði Íslands,“ segir á vef KA.
Lið Cartagena leikur í næst efstu deild á Spáni en var hársbreidd frá sæti í efstu deild í vetur að því er segir í fréttinni. Liðið endaði í 3. sæti deildarinnar. „Boginn er spenntur hátt á næstu leiktíð og er Jóna hugsuð sem aðaluppspilari liðsins en þjálfari Cartagena er enginn annar en André Collin dos Santos sem þjálfaði og lék með karlaliði KA tímabilin 2020-2021 og 2021-2022.“