Íslandsmeistarar sautjánda árið í röð!
Kvennalið Skautafélags Akureyrar í íshokkí tryggði sér í kvöld Íslandsmeistaratitilinn með þriðja sigrinum á liði Fjölnis í úrslitarimmu liðanna. Sigur SA var nokkuð öruggur, 5:1, stelpurnar skoruðu eitt mark í fyrsta leikhluta, eitt í öðrum og náðu svo tangarhaldi á titlinum með tveimur mörkum snemma í fjórða leikhlutanum. Fjölnisliðinu tókst ekki að skora þrátt fyrir fjölda tilrauna, en markvörður SA varði allt sem á markið kom, þar til örfáar sekúndur voru eftir af leiknum, en þá náðu Fjölnisstelpurnar að koma inn fyrsta og eina marki sínu á Akureyri í þessari rimmu.
SA vann fyrstu tvo leikina í rimmunni og var því í kjörstöðu fyrir leikinn í kvöld að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn. Fyrsti leikurinn endaði með því að SA vann eftir markalausan leik og markalausa framlengingu þar sem aðeins var skorað úr einu víti. SA vann síðan annan leikinn sem fram fór syðra með fjórum mörkum gegn tveimur.
Það var að venju góð stemning í Skautahöllinni á Akureyri í kvöld og Stelpurnar okkar vel hvattar af stuðningsfólki og kom auðvitað aldrei annað til greina en að vinna í kvöld og lyfta bikarnum á heimasvelli.
2:0! Anna Sonja Ágústsdóttir, númer 3, skorar annað mark SA seint í öðrum leikhluta. Færið virðist ekki gott en pökkurinn smaug á milli varnarmanna, framhjá markverðinum og í netið. Glæsilega gert!
Hilma Bergsdóttir skoraði eina markið í fyrsta leikhlutanum, með stoðsendingum frá Berglindi Leifsdóttur og Amöndu Bjarnadóttur. SA sótti meira í öðrum leikhlutanum, en markverðirnir vörðu flest skot sem komu á markið þar til rúmar tvær mínútur voru eftir af leikhlutanum. Anna Sonja Ágústsdóttir skoraði þá með langskoti eftir stoðsendingum frá Ingu Rakel Aradóttur og Jónínu Guðbjartsdóttur.
Gulltryggt í þriðja leikhluta
SA-stelpurnar settu svo níu fingur á bikarinn strax þegar um hálf mínúta var liðin af þriðja leikhlutanum þegar Berglind Leifsdóttir skoraði þriðja markið, stoðsending frá Hilmu Bergsdóttur og Amöndu Bjarnadóttur. Þær létu ekki þar við sitja heldur skoruðu aftur rúmri mínútu síðar, en þá var það Sólrún Assa Arnardóttir sem skoraði eftir stoðsendingu frá Jónínu Guðbjartsdóttur og Maríu Eiríksdóttur. Fimmta markið kom þegar um tíu mínútur voru eftir af leiknum, Inga Rakel Aradóttir skoraði þá af löngu færi, stoðsending frá Önnu Sonju Ágústsdóttur.
Hafi Fjölnisliðið átt von í stöðunni 2-0 eftir fyrstu tvo leikhlutana var snarlega slökkt á þeim vonarneista á fyrstu mínútum lokaþriðjungsins, staðan orðin 4-0 og svo 5-0 þegar lokaþriðjungurinn var hálfnaður. Sigrún Agatha Árnadóttir, hokkíkona ársins 2022, náði svo að skora mark fyrir Fjölni þegar um tíu sekúndur voru eftir af leiknum. Það kom of seint.
Fyrsti Íslandsmeistaratitill fyrirliðans
Það var fyrirliði SA, Herborg Rut Geirsdóttir, sem tók við bikarnum úr hendi Helga Páls Þórissonar, formanns Íshokkísambands Íslands, en þetta er í fyrsta skipti sem hún vinnur titilinn með SA. Herborg kom til SA fyrir yfirstandandi tímabil eins og sagt var frá í frétt hér á Akureyri.net í júlí í fyrra. Hún hóf hokkíferil sinn í SA, en flutti ung til Noregs með fjölskyldunni og spilaði hokkí þar og í Svíþjóð.
- MEIRA Á EFTIR – Viðtöl við Herborgu fyrirliða og Jónínu Guðbjartsdóttur, aldursforsetann og aðstoðarfyrirliða SA. Jónína kveðst alls ekki vera hætt í hokkí á meðan skrokkurinn er góður enda vonast hún til að ná að spila og vinna titla ásamt dóttur sinni sem gæti jafnvel spilað með meistaraflokki á næsta tímabili.
Lokatölur: 5-1 (1-0 • 1-0 • 3-1)
SA
Mörk/stoðsendingar: Anna Sonja Ágústsdóttir 1/1, Berglind Leifsdóttir 1/1, Hilma Bergsdóttir 1/1, Inga Rakel Aradóttir 1/1, Sólrún Assa Arnardóttir 1/0, Amanda Bjarnadóttir 0/2, Jónína Guðbjartsdóttir 0/2, María Eiríksdóttir 0/1.
Varin skot: 36 (10+12+14)
Refsingar: 2 mínútur
Fjölnir
Mörk/stoðsendingar: Sigrún Agatha Árnadóttir 1/0, Kristín Ingadóttir 0/1, Teresa Snorradóttir 0/1.
Varin skot: 20 (10+7+3)
Refsingar: 4 mínútur
Íslandsmeistarar Skautafélags Akureyrar 2023.